Anna Katrín Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri atvinnuleitarmiðilsins Alfreðs og hefur þegar tekið til starfa. Tekur hún við starfinu af Halldóri Friðriki Þorsteinssyni, öðrum aðaleiganda Alfreðs, sem verið hefur framkvæmdastjóri fyrirtækisins undanfarin tvö ár. Halldór mun nú einbeita sér að erlendum mörkuðum og uppbyggingu starfseminnar erlendis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Alfreð fór fyrst í loftið árið 2013 og starfar nú á fjórum mörkuðum, en auk Íslands er Alfreð í Tékklandi, á Möltu og í Færeyjum.
Anna Katrín hefur starfað sem stjórnendaráðgjafi og setið í stjórnum fyrirtækja. Hún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Copenhagen Business School og hefur lokið AMP stjórnendanámi frá IESE Business School í Barcelona.