Hlutabréf Origo hafa hækkað um 20% frá því Kauphöllin opnaði klukkan 9.30 í morgun. Þegar þetta er ritað standa bréfin í 84 krónum á hlut en verðið var 70 krónur við lokun markaða í gær.
Tilkynnt var í gærkvöldi um að fyrirtækið hefði selt 40% hlut sinn í Tempo fyrir 29 milljarða króna.
Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar var virði Tempo í viðskiptunum metið á 600 milljónir bandaríkjadala, eða sem nemur um 89 milljörðum íslenskra króna.
Samkvæmt kaupsamningi fær Origo greitt í reiðufé 195 milljónir dala fyrir hlut sinn, en það nemur um 29 milljörðum. Söluhagnaður Origo vegna viðskiptanna er áætlaður um 156 milljónir dala, eða 23 milljarðar, en þá er tekið tillit til bókfærðs virðis og kostnaðar vegna viðskiptanna.