Heildar greiðslukortavelta í september nam rúmum 111,2 milljörðum króna og jókst hún um 18,4% á milli ára miðað við breytilegt verðlag.
Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis hefur ekki mælst hærri í septembermánuði, að nafnvirði, frá upphafi mælinga árið 2012.
Aðeins einu sinni hefur ferðamannaveltan í september mælst hærri að raunvirði, það var árið 2018. Kortavelta erlendra ferðamanna nam tæpum 26,8 milljörðum krróna í september sl. og dróst hún saman um tæp -29,4% á milli mánaða en jókst um 45% á milli ára, að því er segir í tilkynningu.
Ferðamenn frá Bandaríkjunum voru ábyrgir fyrir 38,6% af allri erlendri kortaveltu hérlendis í september. Þjóðverjar komu næstir með 6,7% og svo Bretar með 6,6%.
Heildar kortavelta Íslendinga hérlendis nam rúmum 84,4 milljörðum króna í september og jókst um 11,9% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Innlend kortavelta í verslun nam rúmum 42,9 milljörðum kr. sem er 5,28% meira en á sama tíma í fyrra.
Innlend kortavelta í þjónustu nam tæpum 41,5 milljarði kr. og jókst hún um tæp 19,8% á milli ára.
Innlend kortavelta í verslun á netinu nam tæpum 3 milljörðum kr. í september sl. og jókst hún um tæp 13% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Mest er aukningin á milli ára í flokknum „Stórmarkaðir og dagvöruverslanir" en netverslun með mat- og dagvöru jókst um rúm 27,1% á milli ára.