Ólafur Þór Jóhannesson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs flugfélagsins Play. Tekur hann við af Þóru Eggertsdóttur, en í síðustu viku var greint frá því að hún hefði sagt starfi sínu lausu.
Ólafur Þór gegndi starfi forstjóra, aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra fjármálasviðs Skeljungs hf. á árunum 2019 til 2022. Áður var hann framkvæmdastjóri fjármálasviðs og staðgengill forstjóra Basko ehf., eða á árunum 2012 til 2018. Þar áður var hann framkvæmdastjóri Miðengis ehf. frá árinu 2010 til 2012, en það var eignarhaldsfélag í eigu Íslandsbanka. Á árunum 2006 til 2010 var Ólafur framkvæmdastjóri fjármálasviðs Teymis hf.
Ólafur Þór sinnti jafnframt kennslu við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hlaut löggildingu sem endurskoðandi árið 2000. Hann lagði þau réttindi síðar inn þegar hann fór að starfa sem framkvæmdastjóri Teymis.
Uppfært: Í upphaflegri frétt var haft upp úr tilkynningu Play að Ólafur væri löggiltur endurskoðandi. Hið rétta er að hann lagði inn réttindi sín árið 2006 og hefur fréttin verið uppfærð í samræmi við það.