Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) spáir því að draga muni enn frekar úr hagvexti á heimsvísu á næsta ári. Sjóðurinn hefur því lækkað hagvaxtarspá sína á sama tíma og heimsbyggðin glímir við afleiðingar vegna innrásar Rússa í Úkraínu, síhækkandi kostnað og niðursveiflu í efnahagslífinu.
Hagkerfi heimsins hefur þurft að kljást við margskonar áföll undanfarið. Stríðsátökin í Úkraínu hafa leitt til þess að verð á matvælum og orku hefur rokið upp, og það kemur beint í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Ýmsar kostnaðar- og vaxtahækkanir hafa síðan lagst ofan á á heimsvísu.
Pierre-Olivier Gourinchas, efnahagsráðgjafi AGS, sagði á blaðamannfundi í dag að áföllin í ár myndu ýfa upp gömul sár sem hefðu að auki ekki gróið til fulls.
Ríflega þriðjungur af hagkerfi heimsins er á leið í samdrátt á þessu ári eða því næsta. Þá mun stöðnun ríkja hjá þremur stærstu hagkerfunum, þ.e. hjá Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og Kína.
„Það versta á eftir að koma og munu margir upplifa árið 2023 sem kreppu,“ sagði Gourinchas.
AGS hefur í sinni skýrslu lækkað hagvaxtarspá sína í 2,7% fyrir næsta ár, en það er lækkun sem nemur 0,2 prósentum miðað við spá AGS frá því í júlí. Spáin fyrir árið í ár stendur aftur á móti í stað, eða í 3,2%.
Að sögn AGS er hagvaxtarspáin sú lakasta frá árinu 2001, að undanskildu efnahagshruninu fyrir tæpum 15 árum og hápunkti heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Spáin endurspeglar það hvernig stærstu hagkerfi heims eru í hægagangi.
Eitt af lykilatriðum varðandi breytta stefnu í efnahagsmálum eru viðbrögð seðlabanka víða um heim sem hafa hækkað stýrivexti, m.a. hér á Íslandi, í þeim tilgangi að slá á verðbólguna. Hærri vextir hafa kælt hagkerfið og dregið úr innlendri eftirspurn.
Gourinchas segir að síhækkandi verð ógna velmegun og nú rói seðlabankar heims öllum árum að því að koma á verðstöðugleika.
Reiknað er með að verðbólga á heimsvísu fari hæst upp í 9,5% á þessu ári áður en lækkun hefjist og er búist við að hún verði komin niður í 4,1% árið 2024.