Húsasmiðjan hefur nú fest kaup á nýrri rafknúinni Volvo vöruflutningabifreið frá Brimborg sem ganga mun fyrir rafmagni og er gert ráð fyrir að bifreiðin verði komin í notkun snemma á næsta ári.
Hún verður með fyrstu rafmagnsvörubílum landsins. Það má gera ráð fyrir að þessi vöruflutningabifreið keyri um 2.000 km á mánuði að jafnaði og með því er komið í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda upp á 1,3 tonn koltvísýringsígilda (CO2e) eða rúmlega 15 tonn á ári, að því er Húsasmiðjan segir í tilkynningu.
Þetta er liður í þeim markmiðum fyrirtækisins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í allri starfsemi fyrirtækisins. Hluti af þeim markmiðum er að að skipta út jarðeldsneyti í bílaflota fyrirtækisins í umhverfisvæna orkugjafa, segir enn fremur.
Þá kemur fram, að með nýju timbursölunni við Kjalarvog hafi fyrirtækið náð að minnka heildar kolefnisfótspor timburs sem er afhent á byggingarstaði á höfuðborgarsvæðinu enn frekar þar sem timbrinu sé ekið beint úr skipi við uppskipunarhöfn í vöruhús og timbursölu með rafmagnslyfturum, þaðan sem timbrið fer svo í flestum tilvikum beint til viðskiptavina en ekki á millilagera.
„Húsasmiðjan stefnir að því að megnið af flutningum á timbri innanlands verði með flutningabílum sem ganga fyrir rafmagni. Allt timbur sem selt er í Húsasmiðjunni er FSC og PEFC vottað sem þýðir að það kemur úr sjálfbærum skógum þar sem vist- og lífkerfi skógarins er gætt. Með þessu móti verður kolefnisfótspor timburs frá Húsasmiðjunni með því lægsta sem þekkist hér á landi,“ segir í tilkynningunni.