Skattalækkanir og niðurgreiðslur skammgóður vermir

Árlegur haustfundur AGS stendur nú yfir í Washington. Sjóðurinn varar …
Árlegur haustfundur AGS stendur nú yfir í Washington. Sjóðurinn varar við skattalækkunum og niðurgreiðslum sem stjórntækjum í stormi verðhækkana. AFP/Stefani Reynolds

Svimandi hækkanir matar- og orkuverðs auka hættuna á félagslegri ólgu, en tilraunir til að hemja þessa þróun með skattalækkunum, niðurgreiðslum og verðlagsstjórnun verða dýrkeyptar, gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn út í dag.

Ofangreinda athugasemd má lesa í nýjustu fjármálaskýrslu sjóðsins sem reglulega kemur út undir titlinum Fiscal Monitor. „Þjóðir um gervalla heimsbyggðina sjá fram á aukinn þrýsting og sársaukafull kjör,“ segir Vitor Gaspar, fjármálastjóri AGS, við AFP-fréttastofuna og bætir því við að samkrull verðbólgu og hækkandi matar- og orkuverðs sé hrein ógn við lífskjör almennings.

Í skýrslu sjóðsins kemur enn fremur fram að ríki, sem standa höllum fæti vegna mikilla skulda og séu enn að jafna sig eftir fjárhagsáföllin sem heimsfaraldrinum fylgdu, séu einkar berskjölduð fyrir því kreppuástandi sem einkenna muni það sem eftir lifir þessa árs og líkast til það næsta.

Sem fyrr segir varar AGS eindregið við að beita skattalækkunum, niðurgreiðslum og verðstýringu sem stjórntækjum í núverandi ástandi, þær varnir reynist „dýrar þegar upp er staðið og haldlitlar að auki“.

Nær væri stjórnvöldum að bíða af sér hækkunartímabilið og reyna að styðja við bakið á þeim sem hve verst standa fjárhagslega auk þess að halda að sér höndunum með útgjöld sem þola bið. Lágtekjuríki muni þurfa mannúðaraðstoð frá alþjóðasamfélaginu og neyðarfjármagn til að þoka sér yfir versta hjallann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK