Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækkum 0,2% í október. Ef spá bankans gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna í 8,9% en hún var 9,3% í september.
Í spá bankans kemur fram að viðsnúningur á íbúðamarkaði sé hafinn og að íbúðaverð sé tekið að lækka. Þá gerir bankinn ráð fyrir því að íbúðaverð haldi áfram að lækka með tilheyrandi hjöðnun verðbólgu. Það sem helst vegur til hækkunar í októbermánuði er verð á flugi sem hækkar um 2,8%. Þá hækkar eldsneyti einnig, þó aðeins um 1,2%.
Tólf mánaða verðbólga náði sem kunnugt er hámarki í júlí, þegar hún mældist 9,9% en að sögn Greiningar Íslandsbanka mun hún hjaðna nokkuð hratt á næstu misserum.
„Nú er ár síðan vísitala neysluverðs tók að hækka umtalsvert í hverjum mánuði. Við erum líklega að sigla inn í tímabil þar sem stórir hækkunarmánuðir detta útúr ársmælingunni og inn koma mánuðir sem hækka töluvert minna. Þetta mun leiða til þess að verðbólga hjaðnar hratt á næstunni. Í skammtímaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,1% hækkun vísitölunnar í nóvember, 0,3% hækkun í desember og 0,3% lækkun í janúar. Gangi spá okkar eftir mun verðbólga mælast 7,6% í janúar og vera 8,1% að jafnaði á þessu ári,“ segir í verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka.
Þá kemur einnig fram að langtímaspá bankans hljóði upp á 5,4% verðbólgu að jafnaði á næsta ári og 3,6% árið 2024.