Hringborð Norðurslóða (e. Arctic Circle) og Icelandair skrifuðu í dag undir samstarfssamning með það að markmiði að vinna áfram sameiginlega að því að styrkja Ísland sem alþjóðlega miðstöð umræðu um málefni Norðurslóða og loftslagsmál, skapa umræðu hér á landi um tengd viðfangsefni og kynna Ísland á Norðurslóðum.
Icelandair mun þannig skipa sérstakan sess á vettvanginum sem flugfélag Hringborðs Norðurslóða (e. the Arctic Circle Carrier). Félagið mun taka virkan þátt í umræðum um orkuskipti í flugi, þar með talið í aðalmálstofu þingsins um orkuskipti í flugi ásamt Isavia, Airbus, Neste og DHL, að því er segir í tilkynningu.
Þessa dagana fer fram hið árlega þing Hringborðs Norðurslóða þar sem yfir 2.000 manns frá yfir 70 löndum koma saman í Reykjavík til að ræða framtíð Norðurslóða, loftslagsbreytingar, orkumál, ferðaþjónustu, þróun atvinnulífs og samfélags.
„Frá stofnun Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle hefur það boðið þúsundum áhrifafólks víða að úr veröldinni að sækja í október ár hvert þing sem haldið er í Hörpunni. Þingin hafa orðið veigamikill þáttur í auknum fjölda ferðamanna til Íslands á tímum ársins sem áður voru talin vera utan hins hefðbundna ferðatíma.
Meginþorri þessara þátttakenda hafa á undanförnum árum nýtt sér þjónustu Icelandair og hafa tíð flug félagsins gert Ísland að ákjósanlegum samkomustað,“ er haft eftir Ólafi Ragnari Grímssyni, formanni Hringborðs Norðurslóða.
„Þetta samstarf okkar er liður í aukinni áherslu Icelandair á sjálfbærni og mikilvægur vettvangur til að taka virkan þátt í samtali við helstu hagaðila, deila þekkingu okkar og læra af öðrum. Kjarninn í starfi okkar hjá Icelandair er að halda merkjum Íslands á lofti út um allan heim um fjölbreytt málefni sem tengjast landi og þjóð.
Það er því vel við hæfi að við tökum höndum saman varðandi hagsmuni sem snerta Ísland beint um framtíð Norðurslóða þar sem loftslagsmál, náttúra, menning, samgöngur og ferðaþjónusta eru á meðal lykilviðfangsefna,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.