Már Másson, framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa lónsins, hefur tilkynnt samstarfsfólki sínu að hann hafi samið um starfslok hjá fyrirtækinu.
Þetta staðfestir Már í samtali við Morgunblaðið. Hann hefur starfað hjá Bláa lóninu í sex ár, fyrst sem forstöðumaður markaðs- og mannauðssviðs og síðar sem framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs.
Spurður nánar um starflokin segir Már að hann skilji við félagið í góðri sátt, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins áttu hann og Grímur Sæmundssen, forstjóri Bláa lónsins, fund með starfsfólki í vikunni þar þeir tilkynntu sameiginlega um starfslok Más. Hann hefur þegar látið af störfum en verður þó fyrirtækinu til ráðgjafar næstu misseri.
„Síðustu sex ár hafa verið viðburðarrík og fyrirtækið hefur farið í gegnum mikla umbreytingatíma á þessu tímabili þar sem lagður var grunnur að áframhaldandi vexti félagsins,“ segir Már.
„Ég hef á þessu tíma fengið tækifæri til að leiða rekstrareiningar þess ásamt frábæru samstarfsfólki þar sem við höfum verið í fararbroddi í þróun spa-upplifunar á heimsmælikvarða, byggt upp og eflt glæsilega hótel- og veitingastarfsemi og styrkt enn frekar verslunarrekstur félagsins. Ég get því með nokkurri fullvissu sagt að ég gangi frá góðu búi og skil mjög sáttur við fyrirtækið, starfsmenn og ekki síst stjórnendur.“