Stjórnendur í atvinnulífinu svartsýnni en áður

Byggingarvinna.
Byggingarvinna. mbl.is/Árni Sæberg

Þeim stjórnendum í atvinnulífinu sem telja aðstæður fara versandi eftir sex mánuði hefur fjölgað nokkuð. Hlutfall stjórnenda sem telur aðstæður fara batnandi á næstu sex mánuðum hefur lækkað úr 45% í 25% og hlutfallið sem telur þær fara versnandi hækkar úr 21% í 41%.

Þetta kemur fram í reglubundinni könnun sem Samtök atvinnulífsins (SA) gerir í samstarfi við Seðlabankann á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi.

Fram kemur á vef SA að vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, hefur hríðfallið á síðustu sex mánuðum. Nú telur einungis þriðjungur stjórnenda aðstæður góðar en fyrir hálfu ári taldi helmingur þeirra svo vera. Þá telur þriðjungur aðstæður slæmar miðað við 12% fyrir hálfu ári síðan.

Þá kemur fram að 56,5% fyrirtækja býr við skort á starfsfólki sem er 20% hærra hlutfall en fyrir ári síðan. Í öllum helstu atvinnugreinum nema sjávarútvegi og fjármálastarfsemi býr yfir helmingur fyrirtækja við skort á starfsfólki. Í könnuninni kemur fram að fyrirtækin áforma ekki fjölgun starfsfólks á næstu sex mánuðum, eftir mikla fjölgun fyrr á árinu. Um 26 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni og búast 20% þeirra við fjölgun starfsmanna, 22% við fækkun, en tæp 60% við óbreyttum fjölda.

Búast við hærra vöruverði og minni hagnaði

Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 4,5% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 6,3%. Á ársgrundvelli nema þessar hækkanir 9% og 11%.

Þá kemur einnig fram að stjórnendur búast við minni hagnaði en í síðustu könnunum. 36% stjórnenda búast við að hagnaður aukist milli áranna 2021 og 2022, 28% að hann minnki, en 48% að hann verði svipaður.

Launahækkanir ýta undir verðhækkanir

Stjórnendur telja að launahækkanir séu megin skýring verðhækkana hjá fyrirtækjunum sem þeir stýra. 49% stjórnenda setja launakostnað í fyrsta sæti sem verðhækkunartilefni, sem er hækkun um níu prósentustig frá síðustu könnun, og 29% til viðbótar setja hann í annað sæti. Samanlagt setja því 78% stjórnenda launahækkanir sem mesta eða næst mesta verðhækkunartilefnið.

Hækkun aðfangaverðs er afgerandi í öðru sæti þar sem 35% stjórnenda telja að aðföng hafi mest áhrif og 29% setja þau í annað sæti. Aðrir þættir vega mun minna.

Hægt er að lesa nánar um könnunina á vef SA.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK