Smáforritið Smásaga úr smiðju Origo hefur verið innleitt og tekið til notkunar af öllu starfsfólki landsins sem sinnir heimahjúkrun. Þetta segir í tilkynningu frá Origo, en um er að ræða hluta af pappírslausri vegferð fyrirtækisins.
„Starfsfólkið sinnir einum af viðkvæmustu hópum samfélagsins og sífellt fleiri þurfa á þjónustu heimahjúkrunar að halda,“ segir í tilkynningunni.
Um er að ræða snjalla lausn þar sem upplýsingar um skjólstæðinga fara á öruggan stað í skýi í stað þess að þær séu á skráðar á pappír og svo í sjúkraskrá í lok dags.
Hefur Smásaga bæði aukið yfirsýn, auðveldað þjónustu, sparað kostnað og aukið tengingar milli eininga innan heilbrigðiskerfisins, að sögn Þórólfs Inga Þórssonar, vörustjóra Smásögu.
„Innleiðingin á Smásögu hefur gengið vonum framar og endurgjöf frá notendum verið mjög jákvæð. Starfsfólk heimahjúkrunar á landinu hefur tekið leiðandi skref í notkun á tækni í sínum störfum til að bæði auðvelda starf sitt og auka öryggi sinna skjólstæðinga,“ er haft eftir Þórólfi í tilkynningunni.
„Með notkun á Smásögu getur starfsfólk heimahjúkrunar skráð upplýsingar um skjólstæðinga sína í rauntíma í gegnum snjallsíma, þaðan sendast upplýsingarnar beint í Sögu, sjúkraskrá einstaklings.“