Umræðan um vextina var á villigötum

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Árni Sæberg

Umræðan um vaxtamál þegar Seðlabankinn var að lækka vexti í upphafi faraldursins var á villigötum. „Það töluðu mjög margir um að þessir vextir, 0,75% vextir sem við fórum með lægst í, væri eitthvað sem við myndum búa við til framtíðar. Það er því miður ekki þannig. Það voru mjög margir sem hefðu getað talað öðruvísi og varað fólk við.“ Þetta sagði Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Var Rannveig að svara spurningum frá Guðbrandi Einarssyni, þingmanni Viðreisnar, sem vísaði í spurningum sínum til þess að fólk hefði tekið lán á breytilegum vöxtum í góðri trú þegar vextir hefðu verið hvað lægstir en væri nú að horfa á vextina hækka mikið og greiðslubyrði hækka um tugi þúsunda á hverjum mánuði.

Sagði Guðbrandur að þrátt fyrir þessar miklu forsendubreytingar hefði fólk sem hefði tekið lán sem þessi ekki fengið neinar bætur.

Sló hugmyndir um bætur út af borðinu

Rannveig nefndi í svari sínu ekki frekar hverjir það væru sem hefðu átt að tala öðruvísi, en Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sló orðræðu Guðbrands um bætur út af borðinu. Benti hann á að staðan hefði aldrei verið betri út frá flestum mælikvörðum og þá væri hann ekki bara að horfa á eignastöðuna. Þannig hefði fólk með nafnvaxtarlán farið í gegnum hraða eiginfjármyndun. „Út í hött að tala um bætur fyrir það. Fólk sem hefur fengið hækkun á fasteignaverði plús lækkun á höfuðstól vegna neikvæðra raunvaxta,“ sagði Ásgeir.

„Ekki þannig að fólk hafi tekið breytilega vexti í góðri trú. Það hefur hagnast allverulega á því og svo getur fólk endurskoðað valið.“ Benti hann á að fólk gæti fært sig á milli lánsforma, hvort sem það væri verðtryggt, óverðtryggt eða með fasta eða breytilega vexti.

Segir bankann ekki hafa hvatt til ákveðinna lána

Þá sagði Ásgeir rangt að Seðlabankinn eða hann hefðu hvatt fólk til að taka ákveðin lán umfram önnur, en Guðbrandur hafði sagt skrítið að heyra Ásgeir nú tala fyrir því að fólk gæti flutt sig yfir í verðtryggt lán til að minnka greiðslubyrði. Sagði Ásgeir að Seðlabankinn hefði aðeins reynt að vara fólk við því að t.d. taka ekki verðtryggð lán á röngum forsendum heldur vera með allar upplýsingar um hvernig þau þróast.

Bætti Ásgeir reyndar við að í heildarsamhengi teldi hann heppilegast fyrir Ísland að flestir væru með lán með breytilegum vöxtum, en að best væri þó ef hægt væri að festa vexti til lengri tíma. Fjármögnun bankanna hefði þó ekki boðið upp á það hingað til.

Hvernig á ungt fólk að vita þetta?

„Hvert heimili verður að velja fyrir sig,“ sagði Ásgeir um þau lánafyrirkomulög sem væru í boði. Guðbrandur greip þá fram í og spurði hvernig ungt fólk ætti að vita þetta. Ásgeir svaraði því þá til að það yrði að gera ákveðnar kröfur til þeirra sem veittu lán og þess sem fram komi í fjölmiðlum.

Að lokum vísaði Ásgeir því enn og aftur til föðurhúsanna að þeir sem væru með breytilega óverðtryggða vexti hefðu tapað á ástandinu undanfarin ár. „Þeir sem hafa tapað á þessu eru þeir með verðtryggð lán, þeir hafa fengið þetta alveg á sig. 9% verðbólgu og uppfærslu höfuðstóls. Þeir sem hafa grætt á þessu eru þeir sem eru með óverðtryggð lán. Verðbólga hefur verið mun meiri en þeir vextir sem þau greiða. Þetta hefur í raun bara verið millifærsla til þeirra frá sparibréfeigendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK