Flugfélagið Play mun hefja áætlunarferðir til Aþenu, höfuðborgar Grikklands, næsta sumar og er miðasalan þegar farin af stað. Fyrsta ferðin verður farin 2. júní 2023 og verður flogið tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum, út október sama ár, að því er fram kemur í tilkynningu félagsins.
Verður þetta í fyrsta sinn sem flugfélag er með beint áætlunarflug á milli Íslands og Aþenu.
„Aþena er gjarnan kölluð vagga vestrænnar menningar. Borgin mun uppfylla þarfir allra sem þyrstir í sól og sumaryl, en jafnframt þeirra sem vilja kynnast sögu þessarar merku borgar. Aþena er skemmtileg og lifandi borg með þægilegum gönguleiðum um sögulegar minjar. Borgin státar einnig af stórfenglegri matarmenningu þar sem mætast ferskt hráefni og heilsusamleg matargerð Miðjarðarhafsins,“ segir í tilkynningunni.
Þar er jafnframt athygli vakin á því að frá flugvellinu í Aþenu sé hægt að fljúga til og frá Santorini, Mykonos, Krítar og Ródos.
„Ég er virkilega spenntur fyrir þessum nýja áfangastað og trúi því að margir séu sammála mér. Nú geta Íslendingar farið í beint flug til Aþenu í fyrsta sinn og þá Aþenubúar sömuleiðis til Íslands. Þá er ég viss um að það séu stór tækifæri í tengifluginu og að Bandaríkjamenn muni nýta sér þessa nýju leið Play yfir Atlantshafið til Aþenu og öfugt,” er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play í tilkynningunni.