Spá mesta hagvexti frá árinu 2007

Hagvöxturinn ræðst að miklu leyti af uppgangi ferðaþjónustunnar.
Hagvöxturinn ræðst að miklu leyti af uppgangi ferðaþjónustunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagfræðideild Landsbankans spáir mesta hagvexti frá 2007 á þessu ári eða því sem nemur 6,5%. Byggir þetta aðallega á uppgangi í ferðaþjónustunni sem þýðir jafnframt að það muni hægja á vextinum á næsta ári vegna hægari fjölgunar ferðamanna.

Hagspáin gerir ráð fyrir að kaupmáttur muni rýrna um 0,4% fyrir lok árs en að hann muni aukast aftur árið 2023 því sem nemur 0,5% – sem er þó mun minni vöxtur en undanfarin ár.

Þá eru stýrivextir ekki taldir á niðurleið fyrr en á seinni hluta ársins 2023 og því spáð að verðbólga fari ekki undir 4% fyrr en árið 2025.

Þetta kemur fram í nýrri þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans 2022-2025. Hagspáin verður kynnt á fundi í Silfurbergi í Hörpu sem hefst klukkan 08.30.

Hægari uppgangur í ferðaþjónustu næstu ár

Í helstu niðurstöðum spárinnar kemur fram að gert sé ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um 6,5% á þessu ári og 2,1% á því næsta.

Þá segir að búist verði við talsvert minni hagvexti á næsta ári vegna hægari fjölgunar ferðamanna. Hagfræðideildin reiknar með 1,7 milljónum ferðamanna til landsins í ár og 1,9 milljónum á næsta ári. Árið 2024 verði ferðamenn 2,3 milljónir og hagvöxtur 3% og árið 2025 verði ferðamann 2,5 milljónir og hagvöxtur 1,9%.

Dregur úr útflutningi á næsta ári

Gert er ráð fyrir að útflutningur muni aukast um 22,4% á milli ára í ár en á næsta ári muni draga töluvert úr vextinum (3,7%) samhliða minni fjölgunar ferðamanna og samdrætti í loðnuveiðum. Vöxturinn muni þó aukast í 7% árið 2024 ef staða heimila í Evrópu verður betri.

Hvað innflutning varðar eru horfur á að hann muni aukast mjög í ár sem skýrist m.a. af ferðagleði Íslendinga í sumar. Gerir spáin ráð fyrir 18,6% vexti innflutnings fyrir lok árs en að á næsta ári muni svo hægja verulega á honum.

Þá hefur einkaneysla aukist mjög það sem af er ári, sem má jafnframt skýra vegna ferðalaga Íslendinga erlendis.

Óvissa vegna innrásar Rússa

„Eftir tólf ára samfellda kaupmáttaraukningu, sem er sögulega langt tímabil, sjáum við nú fram á að kaupmáttur muni rýrna á þessu ári og vaxa mun hægar á næsta ári en við eigum orðið að venjast.

Margt bendir til þess að tekið sé að hægja á hagkerfinu og þótt horfur í efnahagsmálum hér á landi séu almennt mjög góðar ríkir samt töluverð óvissa, einkum vegna innrásar Rússa í Úkraínu og áhrifa hennar á alþjóðahagkerfið. Óvissa vegna kjarasamninga er líka mikil,“ er haft eftir Unu Jónsdóttur, forstöðumanns hagfræðideildar Landsbankans, í tilkynningu.

Hún segir jafnframt spá um aukinn hagvöxt á þessu ári aðallega byggja á því að fleiri ferðamenn komi til landsins en gert var ráð fyrir í spá bankans í maí. Þá muni hagvöxtur til næstu ára einnig ráðast að stórum hluta af fjölda ferðamanna.

Ef efnahagsástandið erlendis verði verra en gert var ráð fyrir í spánni, og ferðavilji fólks minni, megi búast við minni hagvexti. Verði ástandið betra muni ferðamönnum aftur á móti fjölga hraðar og hagvöxtur sömuleiðis aukast hraðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK