Árlegur listi Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki var birtur í gær á sérstakri hátíð í Hörpu.
Starfsfólk Creditinfo hefur samhliða vinnslu listans tekið út ýmsar áhugaverðar staðreyndir um fyrirtækin á listanum í ár. Sérstaklega virðist hafa orðið mikill viðsnúningur í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja og fyrirtækja í smásölu og heildsölu.
Tekjur ferðaþjónustufyrirtækja eru nú svipaðar og árin 2018 og 2019. Þá hefur fyrirtækjum í smásölu og heildsölu gengið vel en hagnaður þeirra fyrrnefndu hefur tvöfaldast á síðustu tveimur árum og hjá heildsölum hefur hann aukist um 85% á tímabilinu. Þetta er svipað og í flestum öðrum löndum, þar sem verslun jókst mikið í heimsfaraldrinum, ekki síst verslun í gegnum netið.
Creditinfo tók einnig saman hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á listanum.
Á síðustu 12 árum hefur hlutfallið mjakast hægt og rólega upp á við; úr 8,6% árið 2009 í 12,1% árið 2021. Það sama gildir um hlutfall kvenna í stjórnum Framúrskarandi fyrirtækja, en það hefur hækkað úr 17,3% í 25,1% á sama tímabili.
Creditinfo hefur í 13 ár veitt fyrirtækjum vottun fyrir góðan og traustan rekstur. Markmiðið með því að verðlauna þau fyrirtæki er að stuðla að bættu viðskiptaumhverfi. M.a. er horft til þess hvort ársreikningi hafi verið skilað á réttum tíma, að hagnaður sé af rekstri síðustu þriggja ára, ársniðurstaðan sé jákvæð, rekstrartekjur að lágmarki 50 millj. kr. og eiginfjárhlutfall a.m.k. 20%. Tæplega 900 fyrirtæki eru á listanum í ár.