Verðmæti þjónustuútflutnings í júlí 2022 er áætlað 88,3 milljarðar króna og er áætlað að það hafi aukist um 54% frá því í júlí 2021 á gengi hvors árs. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni. Gert er ráð fyrir að útflutningstekjur af ferðalögum hafi verið um 47 milljarðar í júlí, sem er 53% aukning frá sama mánuði í fyrra.
„Áætlað er að tekjur af samgöngum og flutningum hafi verið 25,4 milljarðar króna í júlí og að þær hafi rétt tæplega tvöfaldast miðað við júlí 2021. Verðmæti annarra þjónustuliða í útflutningi er talið hafa verið 15,4 milljarðar í júlí og að það hafi aukist um 18% frá því í júlí árið áður,“ segir í frétt Hagstofunnar um hinar nýju tölur.
Jókst um ríflega 60%
Þá er verðmæti þjónustuinnflutnings í júlí áætlað 52,6 milljarðar sem sé 61% aukning frá því í júlí 2021, á gengi hvors árs.
„Gert er ráð fyrir að útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis hafi verið 21,3 milljarðar í júlí og að þau hafi rétt rúmlega tvöfaldast samanborið við júlí árið áður. Hvað útgjöld vegna samgangna og flutninga varðar er áætlað að þau hafi verið 8,1 milljarður í júlí og hafi aukist um 31% miðað við júlí 2021. Þá er áætlað að verðmæti annarra þjónustuliða í innflutningi hafi verið 23,2 milljarðar í júlí og hafi aukist um 44% frá því í júlí fyrir ári. Þjónustujöfnuður var því jákvæður um 35,7 milljarða króna í júlí.
Gert er ráð fyrir að verðmæti þjónustuútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá ágúst 2021 til júlí 2022, hafi verið 642,9 milljarðar króna og hafi aukist um 68% miðað við tólf mánaða tímabilið þar á undan. Á sama tímabili er áætlað að verðmæti þjónustuinnflutnings hafi verið 513,1 milljarður og hafi aukist um 66% miðað við tólf mánaða tímabilið þar á undan,“ segir jafnframt í frétt Hagstofunnar.