Amaroq Minerals, auðlindafélag sem rannsakar og vinnur málma í suðurhluta Grænlands, hefur tryggt sér tæplega átta milljarða króna fjármögnun og er stefnan nú sett á skráningu á markað á Íslandi þann 1. nóvember.
Í tilkynningu frá félaginu segir að hlutafjáraukningu sé lokið þar sem félagið tryggði sér 30 milljónir punda sem jafnvirði um 4,9 milljarða króna, í lokuðu útboði. Hlutaféð var selt til innlendra og erlendra fjárfesta ásamt því að lykilstjórnendum og starfsfólki var gefinn kostur á að taka þátt í útboðinu.
Verður andvirði hlutafjáraukningarinnar notað til að hefja vinnslu í Nalunaq gullnámunni í Suður-Grænlandi á næsta ári ásamt því að rannsaka frekar vinnanlegt gullmagn í námunni. Þá verður fé einnig varið í rannsóknir á öðrum svæðum þar sem félagið hefur tryggt sér rannsóknarleyfi.
Amaroq og ACAM gerðu með sér samkomulag fyrr á árinu sem kveður á um að Amaroq stofni nýtt dótturfélag utan um leitarleyfi sín á Suður-Grænlandi þar sem ætla má að meirihluti vinnanlegra málma séu ekki gull heldur málmar eins og kopar, nikkel og fleiri.
ACAM mun leggja fram 18 milljónir punda fyrir 49% hlut í dótturfélaginu, en framlag Amaroq verður, auk vinnsluleyfanna, í formi aðstöðu á svæðinu, flutninga og kostnaðar við nýtingu á innviðum upp á um fimm milljónir punda.
Með hlutafjáraukningunni og samkomulaginu við ACAM hefur Amaroq tryggt sér fjármögnun sem nemur tæplega átta milljörðum króna.
„Þessi hlutafjáraukning mun leika lykilhlutverk í því að ná frekari framþróun í eignasafni okkar á Grænlandi, þar sem við erum í leiðandi stöðu. Það verður sífellt skýrara að Grænland skipta sköpum í hagkerfi framtíðarinnar, en þar verður hægt að vinna mikið magn efnahagslega mikilvægra málma, sem verða lífsnauðsynlegir vestrænum ríkjum á næstu áratugum.
Með því að klára hlutafjáraukninguna og skráningu á íslenskan hlutabréfamarkað munum við geta haldið áfram framkvæmdum við Nalunaq námuna, sem er ein ríkasta gullnáma veraldar. Við munum einnig get hraðað rannsóknum okkar á öðrum leitarsvæðum þar sem finna má málma sem nauðsynlegir verða í orkuskiptum framtíðarinnar,“ er haft eftir Eldi Ólafssyni forstjóra Amaroq Minerals í tilkynningunni.