Skarphéðinn Steinarsson, fráfarandi ferðamálastjóri, segist skilja sáttur frá borði. Þegar hann láti af embættinu um áramótin muni hugur hans stefna til starfa í ferðaþjónustu.
Eins og mbl.is greindi frá hefur Skarphéðinn tilkynnt um starfslok sín en hann hefur gegnt starfinu frá 1. janúar 2018.
Af því tilefni sló mbl.is á þráðinn til hans og fylgja hér spurningar og svör.
Vildi ekki vera í atvinnuleit
Hvað tekur við?
„Ég hef ekki kunnað við að vera leita mér að vinnu verandi í þessu starfi. Minn hugur stendur hins vegar til að vera í rekstri í ferðaþjónustu og þar eru alveg örugglega fjölmörg tækifæri, hvort sem ég standi í því sjálfur eða með einhverjum öðrum. Það á eftir að koma í ljós.“
Þetta hafa verið viðburðarík ár?
„Já. Á þessum fimm árum hefur mikið gengið á. Fyrstu tvö árin var bullandi uppgangur. Svo komu tvö ár í faraldri og svo var bullandi uppgangur aftur.“
Er að verða sextugur
En hvar stendur þú sjálfur?
„Ég verð sextugur á næsta ári og á þessum tímamótum langar mig að verja nokkrum árum í ferðaþjónustu í viðbót. Held ég sé búinn að gera mitt gagn hér. Ég er ekki að fara úr atvinnugreininni, það er alveg öruggt.“
Skilurðu sáttur við Ferðamálastofu?
„Já, bæði samstarfsmenn mína hér og ráðherrana.
Ég hef átt mjög gott samstarf við þá ráðherra sem ég hef unnið fyrir; Lilju Dögg Alfreðsdóttur, núverandi ráðherra ferðamála, og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Þannig að ég skil sáttur við alla.“
Hvenær hættirðu?
„Ég verð hér til áramóta,“ segir Skarphéðinn Steinarsson.