Fagnar betra jafnvægi hjá Sýn

Höfuðstöðvar Sýnar.
Höfuðstöðvar Sýnar. mbl.is/Hari

Jón Skaftason, nýr formaður aðalstjórnar Sýnar, fékk flest atkvæði þegar ný stjórn félagsins var kosin á hluthafafundi í gær. Næstur kom Hákon Stefánsson en þeir tveir höfðu afgerandi mestan stuðning.

Páll Gíslason var í þriðja sæti og er áfram í stjórn. Hann var sjónarmun á undan Jóhanni Hjartarsyni í fjórða sæti sem fékk flest atkvæði síðast en náði nú ekki kjöri.

Nýr varaformaður

Rannveig Eir Einarsdóttir var í fimmta sæti hvað atkvæðafjölda snertir og er nýr varaformaður stjórnar. Í sjötta sæti var Sesselja Birgisdóttir sem situr áfram í stjórn á grundvelli kynjakvóta. Helen Neely og Sigmar Páll Jónsson náðu ekki kjöri.

Hluthafafundurinn var boðaður skömmu eftir að ný stjórn var síðast kjörin 31. ágúst, en hluti hluthafa taldi hana ekki í takt við eignarhluta hluthafa. Hilmar Þór Kristinsson, eiginmaður Rannveigar Eirar, bauð sig síðast fram en hlaut ekki brautargengi. Þau eru eigendur REIRS Verks og voru meðal hluthafa sem óskuðu eftir hluthafafundinum.

Haft var eftir Rannveigu Eiri í ViðskiptaMogganum 21. september að stjórn Sýnar væri ekki í takt við hluthafana. Hluti þáverandi stjórnar hefði mjög takmarkað umboð hluthafa og væri hagsmunum Sýnar betur borgið með því að veita nýju og öflugu fólki ríkara tækifæri til að láta til sín taka.

Eiga nú fleiri fulltrúa

Rannveig Eir vildi aðspurð ekki ræða stjórnarkjörið að öðru leyti en því að niðurstaðan tryggði betra jafnvægi milli einkafjárfesta og lífeyrissjóða sem eiga hluti í félaginu.

„Einkafjárfestar eiga nú fleiri fulltrúa en engu að síður er gott jafnvægi þar á milli. Þannig að ég held að það geti ríkt mun meiri sátt með þessa samsetningu. Ég lít svo á að þessi stjórn muni vinna saman að sameiginlegu markmiði, sem er að hámarka árangur fyrirtækisins. Ég held að það sé meira jafnvægi til þess núna að sjónarmið allra aðila séu uppi á borðum,“ sagði hún.

Rannveig Eir Einarsdóttir við fjölbýlishús sem REIR Verk er að …
Rannveig Eir Einarsdóttir við fjölbýlishús sem REIR Verk er að reisa við Hallgerðargötu á Kirkjusandi. Ljósmynd/Ragna Sif Þórsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK