Eitt land í Evrópu með minni verðbólgu en Ísland

Verðhækkanir á mat og drykk hafa verið meiri víðast hvar …
Verðhækkanir á mat og drykk hafa verið meiri víðast hvar annars staðar í heimsálfunni. Ljósmynd/Guðmundur Rúnar

Verðbólga er töluvert minni hér á landi en annars staðar í heimsálfunni og hefur hún einungis mælst lægri í einu Evrópulandi síðasta mánuð. Verðhækkanir á mat og drykk hafa verið meiri víðast hvar annars staðar og sömu sögu má segja af orkukostnaði. Þá er verðbólgan á Íslandi byrjuð að hjaðna, sem er öfugt við þróunina í flestum öðrum löndum Evrópu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hagfræðideild Landsbankans.

„Síðustu áratugi hefur verðbólga hér á landi jafnan verið hærri og stundum mun hærri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Í dag er þessu öfugt farið og er verðbólga hér á landi nú minni en í langflestum samanburðarlöndum,“ segir í tilkynningunni.

6% verðbólga sé miðað við SVN

Verðbólga á Íslandi, mæld með samræmdri vísitölu neysluverðs (SVN) í Evrópu var 6% í september en verðbólga á mælikvarða neysluverðsvísitölunnar var á sama tíma 9,3%.

Munurinn á verðbólgutölunum liggur fyrst og fremst í því að SVN undanskilur fasteignaverðsþróun í verðmælingunni. Fasteignaverðsþróun hefur verið megindrifkraftur verðbólgu hér á landi.

Sé tekið mið af mælikvarða SVN var aðeins eitt land í Evrópu með minni verðbólgu en Ísland, Sviss, en þar var verðbólga 3,2%. 

Staðan geti versnað

„Ekki nóg með að verðbólga sé lægri hér á landi heldur er hún einnig byrjuð að hjaðna. Það að verðbólgan sé byrjuð að hjaðna heyrir til undantekninga sé horft til ofangreindra landa en í flestum þessara landa var verðbólga að ná nýju hámarki nú í september. Það að verðbólga sé byrjuð að hjaðna er skýr vísbending þess að hámarki hafi verið náð og ólíklegt að verðbólga nái nýju hámarki á næstunni.“

Þá segir einnig í tilkynningunni að staðan kunni að versna í Evrópu áður en hún batni. Nýjustu gögn bendi til þess að verðbólga færist enn í aukana:

„Þetta á við um öll Norðurlöndin, evrusvæðið og lönd Evrópusambandsins. Ísland er þó ekki eina landið þar sem verðbólga hafði þegar náð hámarki fyrir september heldur á það einnig við um Kýpur, Frakkland, Írland, Lúxemborg og Spán.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK