Carbon Recycling International (CRI) hefur gangsett stærstu efnaverksmiðju heims sem nýtir koltvísýringsútblástur sem hráefni til efnavinnslu.
Verksmiðjan getur endurnýtt um 160.000 tonn koltvísýrings á ári úr útblæstri en árleg framleiðslugeta hennar er um 110.000 tonn af metanóli. Verksmiðjan, sem er staðsetti í Anyang í Henan-héraði í Kína, er í eigu Shunli sem er í meirihlutaeigu kínverska iðnfyrirtækisins Henan Shuncheng Group, að því er kemur fram í tilkynningu.
Unnið hefur verið að hönnun og byggingu verksmiðjunnar undanfarin tvö ár. Hún byggist á framleiðslutækni og búnaði sem þróaður hefur verið af CRI og var fyrst sannreyndur í verksmiðju félagsins í Svartsengi. Verksmiðjan í Kína er 28-föld uppskölun á verksmiðjunni hér á landi. CRI er leiðandi á heimsvísu í tækni til að framleiða græna efnavöru og rafeldsneyti með því endurnýta koltvísýring.
Lykilbúnaður í framleiðsluferli verksmiðjunnar er hvarfatankur sem hannaður er og smíðaður eftir forskrift CRI. Hvarfatankurinn er fylltur með efnahvötum sem stuðla að umbreytingu koltvísýrings yfir í fljótandi metanól, sem nýta má bæði sem eldsneyti og hráefni í margvíslegar efnavörur.
Hvarfatankurinn vegur um 84 tonn eða sem nemur þyngd fullhlaðinnar Boeing 737-farþegaþotu. Tankinum er komið fyrir inni í stálgrind og tengdur með lögnum við annan búnað, meðal annars sérhæfða gasþjöppu og tæplega 70 metra háa eimingarsúlu, litlu lægri en Hallgrímskirkjuturn.
Hjá CRI starfa um 30 manns en verkefnið er það stærsta sem félagið hefur tekist á við hingað til. Síðan í júní hefur teymi verið að störfum á vegum félagsins á verkstað í Kína.
Framleiðsluferlið felur í sér að hreinsa og aðskilja gas frá koxofnum ásamt því að fanga CO2-útblástur sem annars færi út í andrúmsloftið. Gasið myndast sem aukaafurð við vinnslu á hráefnum svo sem koxi og kalksteini sem nýtt eru í stálframleiðslu. Metanólið er framleitt með svonefndri ETL-tækni, sem CRI hefur þróað. Það kemur í stað metanóls sem framleitt er úr kolum í Kína, að því er segir í tilkynningunni.
Metanólið sem er framleitt hefur mun lægra kolefnisfótspor heldur en gengur og gerist almennt í metanólframleiðslu í Kína. Kína er stærsti framleiðandi og notandi á metanóli í heiminum og um 80% af metanóli er framleitt með kolabrennslu. Slík framleiðsla hefur í för með sér bæði loftmengun og mikla losun gróðurhúsalofttegunda eða meira en fjögur tonn koltvísýrings fyrir hvert tonn af metanóli sem framleitt er.
„Við erum mjög stolt af árangri félagsins í þessu mikilvæga verkefni, að koma umhverfisvænni íslenskri tækni á heimsmarkað. Tækni CRI er einstök á heimsvísu en með notkun hennar er hægt að draga úr losun koltvísýrings og á sama tíma framleiða vöru sem meðal annars getur spilað lykilhlutverk í orkuskiptum. Með tækni CRI er hægt er að framleiða rafeldsneyti hér á landi sem kemur í stað jarðefnaeldsneytis. Innlend framleiðsla rafeldsneytis styður einnig innlent hagkerfi og eykur orkuöryggi. Til gamans má nefna að framleiðsla þriggja verksmiðja af þessari stærð væri til dæmis nægileg fyrir full orkuskipti á skipaflota landsins“, segir Björk Kristjánsdóttir, forstjóri CRI, í tilkynningunni.
CRI hlaut nýverið Teninginn, verðlaun Verkfræðifélags Íslands, fyrir þróun á tækninni og verksmiðjuna í Anyang í Kína.
CRI hefur nú lokið hönnun á annarri verksmiðju sinni í Kína. Áætlað er að hún verði gangsett í lok árs 2023. Félagið hefur á síðustu misserum fundið fyrir aukinni eftirspurn víða um heim eftir umhverfisvænni tækni þess.
„Hver verksmiðja skilar verðmætum innflutningstekjum af meðal annars leyfisgjöldum af tækni, verkfræðivinnu, tækniþjónustu og sölu á sérhæfðum tækjabúnaði. Fyrirtækið er mikilvægur þátttakandi í hringrásarhagkerfinu og byggir sína starfsemi á útflutningi á umhverfislausnum og hugviti sem þróað hefur verið á Íslandi,” segir í tilkynningunni.