Hlutabréf Meta, móðurfélags Facebook, féllu um 25% í dag eftir að félagið gaf út ársfjórðungsuppgjör í gærkvöldi. Þar kom fram að tekjur félagsins höfðu dregist saman miðað við sama fjórðung á síðasta ári.
Þetta er annar ársfjórðungur í röð sem tekjur félagsins dragast saman milli ársfjórðungs tímabila. Áður höfðu tekjur fyrirtækisins aldrei dregist saman.
Einnig vöruðu stjórnendur félagsins við auknum kostnaði og minni hagnaði vegna aukins kostnaður að sökum verðbólgu og taps sem hlýst af þróun á „metaverse“ sýndarveruleika félagsins.
Markaðsvirði félagsins lækkaði um 85 milljarða bandaríkjadali í dag eða sem samsvarar rúmlega 12 þúsund milljörðum króna.
Það er um fjórföld landsframleiðsla Íslands á árinu 2021. Hlutabréfaverðið hefur ekki verið lægra frá árinu 2016. Alls hefur hlutabréfaverðið fallið um 70% það sem af er ári.