Renata Blöndal hefur verið ráðin til ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures þar sem hún tekur við stöðu framkvæmdastjóra sölu- og þjónustu.
Renata býr yfir tíu ára reynslu úr tæknigeiranum og kemur til Arctic Adventures frá hugbúnaðarfyrirtækinu PayAnalytics þar sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri markaðsmála. Áður hefur Renata einnig starfað hjá CCP, Meniga, Landsbankanum og Krónunni þar sem hún bar meðal annars ábyrgð á Snjallverslun Krónunnar.
Renata er með M.Sc. gráðu í Management Science and Engineering frá Columbia háskóla í New York og lauk B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, að því er segir í tilkynningu.
Arctic Adventures skipuleggur, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar og er eitt rótgrónasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins sem teygir sögu sína til ársins 1983. Um 200 manns starfa hjá fyrirtækinu, bæði á Íslandi og í Vilnius en fyrirtækið keypti nýverið tvö fyrirtæki sem sérhæfa sig í ferðum um Alaska og Kanada. Kaupin voru liður í þeirri stefnu Arctic Adventures að vera leiðandi afl í ferðaþjónustu á norðurslóðum með áherslu á sjálfbærni og gæði.