Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Sveins Andra Sveinssonar hrl. um að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar í anga máls sem snýr að starfsháttum hans sem skiptastjóri þrotabús EK1923 ehf., sem tekið var til gjaldþrotaskipta haustið 2016. Landsréttur sneri fyrr í haust við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og féllst á beiðni þriggja félaga í eigu athafnamannsins Skúla Gunnars Sigfússonar (sem oft er kenndur við Subway), um dómkvadda matsmenn í skaðabótamáli sem félög Skúla Gunnars hafa lagt fram gegn Sveini Andra vegna vinnu hans fyrir þrotabúið.
EK1923 ehf. hét áður Heildverslun Eggerts Kristjánssonar og var í eigu Skúla Gunnars.
Fara fram á skaðabætur
Félög Skúla Gunnars hafa lagt fram skaðabótakröfu á hendur Sveini Andra vegna starfa hans fyrir þrotabúið. Þar er því haldið fram að þóknun hans hafi verði langtum hærri en það sem eðlilegt má teljast. Áður hefur komið fram að skiptakostnaðurinn nam tæpum 200 milljónum króna.
Félögin óskuðu eftir því að fá dómkvadda matsmenn til að meta hver eðlileg þóknun hefði átt að vera fyrir störf Sveins Andra. Héraðsdómur hafnaði kröfunni en Landsréttur sneri þeirri ákvörðun við. Í úrskurði Landsréttar kom fram að félögin sjálf bæru kostnaðinn af öflun matsgerðar og bæru því sjálf áhættu af því að matsgerðin kynni að hafa takmarkað sönnunargildi.
Sveinn Andri skilaði ítarlegri greinargerð til Hæstaréttar þar sem því var haldið fram að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur væri ítarlega rökstuddur og réttur.
Í greinargerð lögmanns félaga Skúla Gunnars kemur þó fram að það sé „hjákátlegt að sóknaraðili [Sveinn Andri] skuli seilast svo langt við að reyna að koma í veg fyrir að tímaskýrslur hans verði teknar út af óháðum aðila,“ eins og það er orðað. Þá kemur jafnframt fram að ef hann teldi að „tímaskýrslurnar þoli slíka skoðun væri hann líklega ekki svo mótfallinn slíkri skoðun að hann teldi á það reynandi að óska eftir kæruleyfi Hæstaréttar á svo hæpnum lagaforsendum líkt og þeim sem fram koma í beiðni hans.“