Rekstrarhagnaður flugfélagsins Play nam á þriðja ársfjórðungi þessa árs um 1,3 milljónum Bandaríkjadala, eða um 180 milljónum króna á meðalgengi tímabilsins. Heildarafkoma Play, þ.e. afkoma eftir skatta og fjármagnsliði, var neikvæð um 2,9 milljónir dala.
Rekstrartap félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 26,4 milljónum dala, eða rúmum 3,5 milljörðum króna á meðalgengi tímabilsins, en heildartap félagsins er um 28,4 milljónir dala. Eiginfjárhlutfall var 12,1% í lok september.
Tekjur félagsins á þriðja ársfjórðungi námu tæplega 60 milljónum dala. Í uppgjörstilkynningu Play kemur fram að ekki sé fyrirséð um að áður útgefin spá um jákvæða rekstrarniðurstöðu af síðari hluta ársins standist vegna krefjandi ytri aðstæðna á mörkuðum sem hafi mikil áhrif á fjárhagslega frammistöðu í rekstrinum. Í því samhengi eru taldar til nokkrar ástæður, svo sem að eftirspurn frá farþegum til Íslands hafi verið minni síðsumars en búast mátti við þar sem mörg hótel voru uppbókuð og bílaleigubílar sömuleiðis. Afleiðing þess hafi verið aukinn fjöldi tengifarþega í stað farþega til Íslands, sem skila minni tekjum.
„Hliðartekjur voru einnig minni en vænta mátti en þar skipti mestu aukin eftirspurn eftir handfarangri í stað innritaðs farangurs. Ástæða þeirra breytinga var ótti farþega við erfiðleika á flugvöllum víða um heim. Á sama tíma hélst olíuverð hátt. Allt hafði þetta óhjákvæmileg áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins,“ segir í tilkynningunni.
Rekstrarspá Play hefur jafnramt verið færð niður, en flugfélagið áætlar að tekjur á árinu verði um 140 milljónir dala. Áður hafði félagið gert ráð fyrir 150-160 milljónum dala í rekstrartekjur á þessu ári.
Sætanýting félagsins á þriðja ársfjórðungi var um 85% og félagið flutti um 311 þúsund farþega. Gert er ráð fyrir að farþegar á árinu í heild verði um 800 þúsund.