Adidas hefur ráðið Björn Gulden, forstjóra keppinautarins Puma, sem næsta forstjóra sinn.
Með ráðningunni vonast þýski íþróttavöruframleiðandinn til að ná betri árangri eftir marga mánaða umrót.
Gulden, sem er fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu og handbolta, hefur störf í janúar á næsta ári og kemur þá í stað núverandi forstjóra, Danans Kaspers Rorsteds.
Guldens bíða stórar áskoranir hjá Adidas. Sala á vörum fyrirtækisins hefur dregist saman í Kína vegna takmarkana af völdum kórónuveirunnar og nýlega batt Adidas enda á gjöfult samstarf sitt við rapparann Kanye West.
„Sem forstjóri Puma blés hann nýju lífi í vörumerkið og leiddi fyrirtækið til metárangurs... Gulden kemur til með að leiða Adidas inn í nýtt tímabil, uppfullt af styrk,“ sagði Thomas Rabe, stjórnarformaður Adidas.
Gulden, sem er 57 ára, undirritaði samning til næstu fimm ára. Hann starfaði áður hjá Adidas í sjö ár á tíunda áratugnum og er því að snúa aftur heim, ef svo má segja.
Á sínum tíma lék hann knattspyrnu með félagi Nürnberg frá Þýskalandi og norsku liðunum Bryne og Stromsgodset.