Hagvöxtur verður óvíða meiri meðal OECD-ríkja en á Íslandi í ár að sögn fjármálaráðuneytisins. Hraður viðsnúningur er að verða á afkomu ríkissjóðs á þessu ári og er gert ráð fyrir að afkoman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði um 2 prósentustigum betri en áður var gert ráð fyrir, eða sem nemur um 60 milljörðum kr.
Batinn hefur verið drifinn áfram af mikilli fjölgun ferðamanna og vexti einkaneyslu. Þetta kemur fram í fjáraukalagafrumvarpi ársins 2022 sem lagt hefur verið fram á Alþingi.
Fram kemur í tilkynningu á vef ráðuneytisins, að í frumvarpinu sé að finna endurmat á afkomuhorfunum fyrir árið 2022 í samanburði við áætlun fjárlaga. Er nú gert ráð fyrir að halli á afkomu ríkissjóðs verði 3,4% af VLF á árinu í stað 5,2% af VLF samkvæmt áætlun fjárlaga og 7% af VLF árið 2021.
„Sá hraði viðsnúningur sem nú er að verða á afkomu ríkissjóðs kemur í kjölfar mikils hallareksturs árin 2020 og 2021 sem leiddi af heimsfaraldri kórónuveiru. Áhrifa faraldursins hefur áfram gætt á útgjaldahlið ríkissjóðs í ár en þó ekki í sama mæli og sl. tvö ár. Þá hefur tekjuhlið ríkissjóðs tekið hraustlega við sér eftir að hafa dregist mikið saman í faraldrinum,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram, að sá kröftugi efnahagsbati sem hófst árið 2021 hafi náð miklum styrk á þessu ári. Hann sé drifinn áfram af mikilli fjölgun ferðamanna og aukinni einkaneyslu. Hvort tveggja hafi verið umfram væntingar við samþykkt fjárlaga ársins.
„Atvinnuleysi hefur lækkað hraðar en búist var við, jafnvel þótt aldrei fyrr hafi fleiri flutt til landsins en frá því fyrstu níu mánuði árs en árið 2022. Batinn hefur verið svo þróttmikill að óvíða meðal aðildarríkja OECD verður meiri hagvöxtur í ár. Verðbólga hefur einnig hækkað í ár, langt umfram það sem spáð var við samþykkt fjárlaga ársins,“ segir enn fremur.