Eðlilegar skýringar á lítilli veltu í aðdraganda sölu Íslandsbanka

Sala ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka þann 22. mars sl. fór fram á hárréttum tíma í ljósi þess hvernig fjármálamarkaðir hafa þróast á árinu, ári sem má lýsa sem Annus horribilis á fjármálamörkuðum.

Þetta segir Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja á visir.is, í nýjum þætti hlaðvarps Þjóðmála. Þar ræða hann og Örn Arnarson, ritstjórarfulltrúi á Viðskiptablaðinu, um stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um söluna í bankanum og viðbrögðin við úttektinni. Hlaðvarpi Þjóðmála er stýrt af Gísla Freyr Valdórssyni, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu.

„Þetta er líklega eini glugginn á þessu ári, þessu Annus horribilis ári á fjármálamörkuðum og í alþjóðlegum stjórnmálum, þar sem hægt var að skófla út 22,5% hlut í bankanum fyrir 53 milljarða króna,“ segir Hörður og bendir á að fjármálamarkaðir hafi tekið á sig þungt högg eftir innrás Rússa inn í Úkraínu tæpum mánuði áður, en rétt lítillega úr kútnum áður en salan fór fram. Síðar hafi þeir leitað aftur niður á við og því hafi þetta reynst rétti glugginn til að selja hlut.

„Það hefði verið útilokað að selja hlut í bankanum á öðrum tímapunkti síðar á þessu ári með jafn litlu fráviki frá síðasta dagslokagengi eins og tókst þarna, ég fullyrði það,“ segir Hörður.

Í þættinum er farið yfir helstu þætti sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og þá umræðu sem hefur skapast eftir að hún kom út.

Örn segir í þættinum að margir þeir sem taki þátt í umræðum um söluna hafi ekki áhuga á hinu rétta í málinu og umræðan virðist að miklu leyti snúast um að tortryggja söluna frekar. Hann segir margt í skýrslunni í skrýslunni sé sett fram til að fóðra þá umræðu enn frekar og tiltekur meðal annars kafla í skýrslunni þar sem vakin er sérstök athygli á því að nær engin velta hafi verið með bréf í Íslandsbanka í aðdraganda sölunnar.

Örn Arnarson, ritstjórnarfulltrúi á Viðskiptablaðinu, og Hörður Ægisson, ritstjóri viðskiptamiðilsins …
Örn Arnarson, ritstjórnarfulltrúi á Viðskiptablaðinu, og Hörður Ægisson, ritstjóri viðskiptamiðilsins Innherja á visir.is.

Örn bendir á að velta hafi almennt ekki verið mikil á þessum tíma en á föstudegi fyrir útboðið hafi Fjármálaráðuneytið sent frá sér tilkynningu um að fjármálaráðherra hefði samþykkt tillögur Bankasýslunnar um áframhaldandi sölu á bankanum. Þá hafi myndat almennar væntingar á markaði um að útboðið væri yfirvofandi.

Á mánudegi, daginn áður en salan fór fram, hófust þreifingar á milli Bankasýslunnar og helstu aðila á markaði, meðal annars lífeyrissjóða, um þátttöku í útboðinu.

„Þar með voru lífeyrissjóðir orðnir innherjar og máttu ekki eiga viðskipti með bréf í Íslandsbanka. Það er reynt að gera þetta tortryggilegt – hversu lítil velta var með bréf bankans – þegar hið augljósa blasir við, það voru mjög stórir aðilar á markaði sem gátu ekki átt viðskipti með bréfi út af þessum þreifingum. Þða sama á við um mikilvæga mótaðila á markaði,“ segir Örn.

Ríkisendurskoðun upplýsti Fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) sérstaklega um þessa þætti, en bæði Örn og Hörður eru sammála um að það hafi í raun verið óþarfi þar sem FME hafi þá þætti sífellt til skoðunar.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK