Sigríður Theódóra Pétursdóttir, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Brandenburg, segir að langtímahugsun og þolinmæði sé mikilvæg hvað viðkemur því að byggja upp öflugt vörumerki og trausta ímynd þess.
„Það er hægt að selja tilteknar vörur í skamman tíma en það er síðan mun stærra verkefni að byggja upp sterka ímynd. Vörumerkjum er sífellt að fjölga í heiminum og þá skiptir ímyndin öllu máli ef fyrirtæki ætla að skara fram úr.“
– Átta stjórnendur sig á því?
„Það er allur gangur á því. Við sjáum að sterkustu vörumerkin á Íslandi átta sig á því,“ segir hún.
Sigríður Theódóra nefnir óvænt að mögulega sé auglýsingastofa ekki réttnefni, því starfsemin felist í mörgu öðru en að búa til auglýsingar og birta þær.
„Þetta snýst allt um að byggja upp virði vörumerkja þeirra sem við erum að vinna fyrir. Það felur í sér miklu meira en að búa til og birta auglýsingar. Það snýst um stefnumótun, strategíu, tón, ásýnd og alla snertifleti vörumerkisins,“ segir hún.
– Er orðið auglýsingastofa þá of þröngt hugtak?
„Já, mögulega. Við höfum verið að leika okkur með enska orðið creative agency og meira að segja komin með gott íslenskt orð yfir það,“ segir hún létt í bragði.
– Eru auglýsingastofur nokkuð í tilvistarkreppu?
„Nei alls ekki, en við þurfum að þróast í samræmi við samfélagið og hvað viðskiptavinir okkar vilja. Eins og ég sagði þrífumst við á breytingum og umbyltingum á gömlum og stöðnuðum hugmyndum. Hverjar sem áskoranirnar eru verður alltaf eftirspurn eftir góðum hugmyndum. Þar ætlum við að skara fram úr með strategískri hugmyndavinnu sem skilar viðskiptavinum okkar árangri og auknum hagnaði,“ segir Sigríður Theódóra.
Hægt er að lesa viðtalið við Sigríði í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.