Útlit fyrir metfjölda flugfélaga í vetur

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, er gestur í nýjasta þætti Flugvarpsins.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, er gestur í nýjasta þætti Flugvarpsins. Eggert Jóhannesson

Umferð um Keflavíkurflugvöll hefur náð sömu hæðum og fyrir heimsfaraldurinn og í vetur er allt útlit fyrir að fleiri flugfélög sinni flugi til vallarins en nokkru sinni áður yfir vetrartímann eða um 20 talsins.

Eins og Morgunblaðið og ViðskiptaMoggi hafa fjallað um standa nú yfir miklar framkvæmdir á Keflavíkruflugvelli, bæði við stækkun flugstöðvarinnar og gerð nýrra akbrauta til og frá flugbrautum til að bæta flæði flugvéla til og frá flugstöðinni. Áætlað er að vel yfir 6 milljónir farþega fari um völlinn á þessu ári og allt útlit fyrir fjölgun á næstu árum.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir í nýjasta þætti Flugvarpsins, sem er hlaðvarp um flugmál, að Keflavíkurflugvöllur hafi nú náð að endurheimta stöðu sína að fullu miðað við sem var fyrir faraldurinn. Þá segir hann að Isavia merki áframhaldandi áhuga flugfélaga á að fljúga til Íslands og umsvifin séu að aukast.

„Við þurfum að hafa innviði á vellinum til að taka við aukinni umferð og vöxturinn verður að vera sjálfbær. Þannig að við þurfum að taka okkur tíma til að gera okkur kleift að taka við auknum fjölda,“ segir Sveinbjörn. Hann segir jafnframt að Isavia vilja læra af reynslu fyrri ára og fara ekki of geyst. Þó liggi fyrir að töluverð lánsfjárþörf fyrir uppbygginguna á næstu árum. Á sama tíma er efnhagsreikningur Isavia lemstraður eftir Covid-faraldurinn og félagið þarf því að byggja upp sína afkomu.

Þá kemur einnig fram að Sveinbjörn telur gríðarlega möguleika í að stækka og auka umsvifin á Keflavíkurflugvelli, einkum fyrir tengifarþega á leið um Ísland. Þótt Íslendingar geti ekki tekið endalaust á móti ferðamönnum þá séu möguleikar á að flugvöllurinn geti stækkað sem skiptistöð fyrir farþega á leið hér í gegn.

Segir innanlandsflugvelli fjársvelta

Þá segir Sveinbjörn í þættinum að innanlandsflugvallakerfið hefur verið fjársvelt lengi og þar sé komin rík þörf fyrir margs konar viðhald eins og á flugstöðvum úti um landið.  Hann segir stórkostlegt að starfsfólki hafi tekist að viðhalda kerfinu jafn vel og raun ber vitni miðað við það fjármagns sem ríkið leggi til þess. 

„Við erum sérhæfð í að reka flugvelli og þegar við erum spurð þá setjum við í forgang öryggismálin sem tengjast því að flugvélar geti með öruggum hætti lent og farið aftur. Fyrir vikið er í þessu fjársvelti komin mikil viðhaldsþörf víða um land og t.d. flugstöðvarnar orðnar lélegar og liggja undir skemmdum“ segir Sveinbjörn. 

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK