Flestar ríkisstjórnir hefðu verið ánægðar með söluna á hlut í Íslandsbanka fyrr á þessu ári og enginn með réttu ráði hefði tekið áhættuna af því að reyna að fá hærra verð fyrir bankann.
Þetta segir Mark Baker, aðstoðarritstjóri á viðskiptamiðlinum Euromoney, í pistli á vef síðunnar þar sem fjallað er um söluna og skýrslu ríkisendurskoðunar sem birt var í síðustu viku.
Baker rekur í pistli sínum það sem kalla hefur verið Excel-klúðrið og nokkuð er fjallað um í skýrslu ríkisendurskoðunar. Nokkuð hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum frá því að skýrslan kom út, en í stuttu máli snýst það um að Íslandsanki, sem hélt utan um pöntunarbókina við söluna þriðjdaginn 22. mars sl., þar sem tilboð voru slegin inn með mismunandi hætti á meðan verið var að safna tilboðum saman – sem leiddi til þess að ekki fékkst rétt mynd á þau tilboð sem komin voru. Þetta var þó leiðrétt skömmu síðar og formúlurnar í skjalinu samræmdar.
Baker segir að þrátt fyrir að þetta hafi verið klaufalegt og vandræðalegt, þá skipti mestu máli að mistökin hafi verið leiðrétt áður en ákvörðun um verðlagningu var tekin. Sú ákvörðun hafi byggt á réttum upplýsingum og því veki það furðu að svo mikið sé fjallað um þetta atvik í skýrslu ríkisendurskoðunar.
Þá segir hann í pistli sínum að Bankasýslan hafi svarað rúmlega 70 blaðsíðna skýrslu ríkisendurskoðunar með 45 blaðsíðna svari. „Þetta er frábær skemmtun,“ segir hann í pistlinum.
Hann bendir jafnframt á að salan, sem fór fram á einum degi, hafi falið í sér tíu daga heildarveltu í Kauphöllinni og 280 daga veltu með bréf í Íslandsbanka. Því sé 4,1% frávik frá markaðsverði vel við hæfi.
Baker bendir á að meginniðurstaða ríkisendurskoðunar sé að salan hafi verið hagfelld fyrir ríkissjóð, en hefði mögulega getað verið betri.
„Það er erfitt að gleðja endurskoðendur,“ segir Baker í pistlinum og bendir á að á meðan ráðgjafar útboðsins hafi rætt um það hvort að verðið ætti að vera 117 eða 118 krónur á hlut hafi ríkisendurskoðun komist að þeirri niðurstöðu að verðið ætti að vera nær dagslokagengi, um 122 kr. á hlut eða að minnsta kosti 120,5 kr. á hlut.
Hann bendir að lokum á að umsjónarmenn útboðsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að hærra verð en það sem ákveðið var hefði framkallað það sem Baker kallar Harmageddon á hlutabréfamarkaði innanlands, þá sérstaklega ef að kaupendur hefðu þurft að selja önnur bréf til að greiða fyrir bréfin í Íslandsbanka. Hann tekur fram að umframeftirspurnin á genginu 120,5 kr. hafi aðeins numið 1,3 og því hafi „enginn með réttu ráði“ séð ástæðu til að stækka útboðið.