Skapar íslenska ríkinu bótaskyldu

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskir lífeyrissjóðir telja lagalega stöðu sína, vegna fyrirhugaðrar lagasetningar fjármálaráðherra um gjaldþrot ÍL-sjóðs, afar sterka. 

Fram kemur í tilkynningu frá lífeyrissjóðunum að lögfræðistofan LOGOS hafi unnið lögfræðiálit fyrir sjóðina sem kynnt var á fundi með þeim fyrr í dag. 

Niðurstaða lögfræðiálitsins er að fyrirhuguð lagasetning brjóti í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. 

Feli í sér eignarnám

Er í áliti LOGOS vitnað til þess að slíkt inngrip fæli í sér eignarnám eða annars konar skerðingu eignarréttinda sem færi í bága við stjórnarskrá og skapaði íslenska ríkinu bótaskyldu gagnvart skuldabréfaeigendum.

„Þá kemur fram í lögfræðiálitinu að fjármálaráðherra beri beina ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðs eftir þær breytingar sem urðu á Íbúðalánasjóði við lagabreytingu árið 2019. Í áliti LOGOS er vitnað til þess að ÍL-sjóður hafi orðið til þegar Íbúðalánasjóði var skipt upp með lögum árið 2019 en með þeim var fjármálaráðherra falin yfirumsjón með sjóðnum.

Við breytinguna hafi ÍL-sjóður orðið hluti verkefna fjármála- og efnahagsráðuneytis sem fari með daglega stjórn sjóðsins. Þannig sé ÍL-sjóður ekki undirstofnun ráðherra, enda hafi fjármálaráðherra stjórnsýslu- og rekstrarlegt forræði yfir sjóðnum. ÍL-sjóður teljist því ekki sérstök undirstofnun, heldur hluti ráðuneytisins. Þannig sé íslenska ríkið skuldari frekar en ábyrgðarmaður. Það sé jafnframt í samræmi við þau sjónarmið að færa sjóðinn undir A-hluta ríkisreiknings frá áramótum,“ segir í tilkynningu. 

Íslenska ríkið mun ótvírætt bera ábyrgð

Enn fremur kemur fram í álitinu að ákveði fjármálaráðherra að slíta sjóðnum, með þeim afleiðingum að kröfur á hendur þrotabúinu falli í gjalddaga, muni íslenska ríkið ótvírætt bera ábyrgð á núverandi og framtíðarskuldbindingum samkvæmt skilmálum skuldabréfanna ásamt dráttarvöxtum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK