Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, segir þörf fyrir varaflugvelli á Íslandi mjög brýna. Blóðugt sé þó að leggja eigi álögur á ferðaþjónustuna vegna þess. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að Keflavíkurflugvöllur anni vart eftirspurninni í dag.
Jóhannes Þór bendir á að ríkið hafi trassað í áratugi að byggja upp varaflugvelli fyrir millilandaflugið. Birgir tekur undir að þörfin fyrir varaflugvelli sé brýn og vonast til þess að aukagjaldið skili sér í þá uppbyggingu en sé ekki sett í annað.
Drög að nýju frumvarpi hafa verið lögð fram til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda en þar er lagt til að hver farþegi í millilandaflugi á Íslandi greiði 200 krónur í svokallað varaflugvallagjald.
Í greinargerð frumvarpsins segir að þessar tekjur muni renna í frekari uppbyggingu flugvallanna á Egilsstöðum og Akureyri en það sé nauðsynlegt svo þeir geti talist fullnægjandi varaflugvellir fyrir alþjóðaflug.
„Markmiðið með uppbyggingu varaflugvalla er mjög þarft, til dæmis út frá öryggissjónarmiði varðandi flug á Íslandi. En það er alveg ljóst að sérstök gjaldtaka sem þessi er okkur ekki að skapi,“ sagði Jóhannes þegar mbl.is bar þetta undir hann í dag.
„Sérstaklega ekki í þessu umhverfi núna þar sem ferðaþjónustan er að ná sér aftur á strik eftir faraldurinn og samkeppnin í heiminum er hörð. Þetta skaðar samkeppnishæfni íslensku flugfélaganna í samkeppni við önnur flugfélög sem fljúga beint yfir Atlantshafið.“
„Nú heyrast væntanlega þau sjónarmið að 200-kall sé nú ekki mikill peningur og það má til sanns vegar færa í heildarsamhengi hlutanna. Menn verða hins vegar að horfa á þetta í samhengi við aðra gjaldheimtu sem er einnig að aukast eins og önnur flugvallagjöld sem leggjast á flugfélög sem fljúga til Keflavíkur.“
Jóhannes bendir á að aukin skattheimta skili ekki alltaf því sem til sé ætlast. Þegar hún gangi úr hófi fram þá minnki eftirspurnin.
„Í sambandi við sérstaka skattheimtu af ferðaþjónustu þá höfum við lengi bent á að slík skattheimta getur haft öfug áhrif fyrir tekjuöflun ríkisins. Hefur það til dæmis komið fram í skýrslum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur látið gera vegna skattheimtu á ferðaþjónustu.
Þar er bent á að þegar skattheimtan fer yfir ákveðin mörk þá getur hún farið að hafa þau áhrif að þær tekjur sem vonast var eftir skila sér ekki til ríkisins vegna þess að eftirspurnin minnkar. Þetta er ákveðið lögmál í samskiptum ríkis og atvinnurekenda eins og þekkt er en hefur ekki síður áhrif á ferðaþjónustuna en annað. Þess vegna er sér skattheimta okkur nokkur þyrnir í augum,“ segir Jóhannes og að hans mati hafa stjórnmálamennirnir ekki staðið sig í uppbyggingu varaflugvalla.
„Þegar horft er til uppbyggingar varaflugvalla þá finnst okkur ríkið einfaldlega ekki hafa staðið sig í því hingað til. Þegar til stendur að byggja upp aðstöðu á alþjóðaflugvöllum á Íslandi, sem ríkið hefur trassað í áratug ef ekki áratugi, þá þykir okkur heldur blóðugt að það sé sérstaklega lagt á atvinnugreinina. Uppsöfnuð uppbyggingar- og viðhaldsþörf í þessu kerfi er orðin alveg gríðarleg á síðustu tuttugu til þrjátíu árum þótt gefa megi afslátt af árunum eftir hrun 2008-2016.
Okkur finnst ansi skítt að reikningurinn skuli svo vera lagður fyrir fætur atvinnugreinarinnar. Það væri nær að ríkið myndi horfa til þeirra tugmilljarða sem greinin í heild sinni skilar til ríkisins í formi skatttekna og nýta frekar hluta þeirra tekna til að byggja upp. Ferðaþjónustan er til dæmis eina útflutningsgreinin sem skilar virðisaukaskatti sem er mjög mikill tekjustofn fyrir ríkið,“ segir Jóhannes en samtökin komu sínum sjónarmiðum á framfæri við smíði frumvarpsins.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, kveðst ekki mótfallinn þessari aðgerð að svo stöddu en leggur áherslu á að fjármagnið skili sér þá í uppbyggingu varaflugvalla eins og stefnt sé að.
„Svo lengi sem svona aukagjöld skila sér í þau málefni sem þau eru eyrnamerkt þá er þetta jákvætt. Það gerist því miður ekki alltaf. Við höfum séð aðstæður þar sem Keflavíkurflugvöllur lokast og ekki er pláss á Íslandi fyrir allar þær flugvélar sem eru í aðflugi að vellinum. Flugöryggi er framar öllu svo það að byggja upp fleiri varaflugvelli er mjög mikilvægt,“ segir Birgir í svari til mbl.is og bendir á að Keflavíkurflugvöllur anni vart eftirspurninni eins og staðan sé í dag.
„Að auki er augljóst að ferðaþjónustan þarf fleiri flugvelli á Íslandi því að Keflavíkurflugvöllur er næstum sprunginn, þótt vissulega sé verið að fjárfesta mikið í vellinum núna.“