„Ég hef fulla trú á þessu verkefni”

Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play
Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play Árni Sæberg

„Ég hef fulla trú á þessu verkefni og tel að félagið stefni á stöðugan rekstur,“ segir Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play, í samtali við Morgunblaðið. Play lauk í gær við hlutafjáraukningu þar sem hlutafé félagsins var aukið um 2,3 milljarða króna.

Nokkuð hefur verið fjallað um stöðu og rekstur Play eftir að félagið birti uppgjör þriðja ársfjórðungs í byrjun nóvember. Tap félagsins á tímabilinu nam um 2,9 milljónum Bandaríkjadala. Óhætt er að segja að það hafi komið nokkuð á óvart, þar sem þriðji ársfjórðungur er alla jafna besti tíminn í rekstri flugfélaga. Tap félagsins fyrstu níu mánuði ársins nemur þá um 28,4 milljónum dala, eða um fjórum milljörðum króna. Sama dag og uppgjörið var kynnt var tilkynnt að ráðist yrði í hlutafjáraukningu og að 20 stærstu hluthafar félagsins hefðu samþykkt að taka þátt í henni.

Einar Örn fer fyrir stærsta hluthafa félagsins, fjárfestingafélaginu Fiskisundi, sem fer með 8,6% hlut. Aðspurður segir hann að ekki sé ráðist í hlutafjáraukningu nú af illri nauðsyn heldur til að styrkja stöðu félagsins. 

„Reksturinn gengur að mestu samkvæmt áætlun, þó vissulega hafi komið upp atriði sem erfitt var að sjá fyrir,“ segir hann og nefnir til sögunnar hátt olíuverð í kjölfar stríðsins í Úkraínu og mikla óreiðu á flugvöllum beggja vegna Atlantshafsins þegar flug tók við sér á ný eftir heimsfaraldur.

„Við horfum þó til bjartari tíma og gerum ráð fyrir betri rekstri næsta sumar,“ segir Einar Örn.

- Eins og þú nefndir þá kunna að vera ýmsar skýringar á því af hverju tekjur félagsins hafa byggst upp hægar en gert var ráð fyrir. Birgir Jónsson, forstjóri Play, hefur líka nefnt þær en einnig að sala flugmiða í ágúst og september hafi verið nokkuð undir væntingum þar sem Ísland var uppselt eins og hann komst að orði. En hvernig horfir þetta við ykkur til lengri tíma?

„Það er ekki að ástæðulausu sem við erum bjartsýn á að tekjur félagsins muni aukast og reksturinn komast í betra jafnvægi,“ segir Einar Örn.

„Við vitum hvað það er sem þarf að bæta og laga. Starfsemi flugvalla er að komast í betra horf, svo ég nefni dæmi, þannig að fólk mun bóka töskur með sér ólíkt því sem það gerði síðastliðið sumar. Olíuverð mun ná jafnvægi, erlendum ferðaskrifstofum sem bóka með okkur fer fjölgandi, við sjáum fram á aukna sölu í frakt og þannig má áfram telja.“

Þá segir Einar Örn að það sem snýr að flugi gangi almennt vel, vélar félagsins séu að fara í loftið á réttum tíma, að skila fólki á áfangastað á sanngjörnu verði og að Play felli sjaldnar niður ferðir en helstu keppinautar þess.

„Allt hitt sem ég nefndi er eitthvað sem við sjáum bót á,“ segir hann.

 Nánar er rætt við Einar Örn í viðtali í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK