Treble Technologies, íslensk sprotafyrirtæki sem þróar tækni til hljóðhönnunar, hefur safnað átta milljónum evra, sem samsvarar 1,2 milljörðum króna.
Þar af fékk sprotinn 5,5 milljóna evra fjárfestingu frá fjárfestum og 2,5 milljónir evra í styrk frá Evrópska nýsköpunarráðinu.
Tæknin sem fyrirtækið þróar gerbyltir því hvernig hægt er að hanna hljóð og skapa hljóðupplifanir á breiðu sviði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sprotanum.
Frumtak leiddi fjármögnunarlotuna sem er á klakstigi (e. seed stage) í samstarfi við NOVA, nýsköpunararm Saint-Gobain sem er meðal 500 stærstu fyrirtækja heims, auk englafjárfesta.
„Á einungis tveimur árum hefur Treble tekist að þróa byltingakennda tækni og hafið samstarf við leiðandi tæknifyrirtæki á heimsvísu. Fjármögnunin gefur okkur færi á að hleypa af stokkunum tæknilausninni og efla hana. Stefnt er á að setja hana formlega í loftið snemma á næstu ári og fjölga starfsmönnum.
Fólk áttar sig oft ekki á því áreiti sem hljóð skapar en rannsóknir sýna að það hefur mikil áhrif á heilsu okkar, framleiðni og getu okkar til að eiga samskipti. Tæknin okkar mun leiða til þess að heimurinn – hvort sem litið er til raunheima eða þess stafræna – muni hljóma betur og vera minna plagaður af hávaða. Hljóð er afar mikilvægt fyrir upplifun í sýndarheimum, en rannsóknir hafa sýnt að aukin hljómgæði þar hafa mikil áhrif á upplifun fólks, jafnvel meir en aukning í bættri grafík gefur. Treble stefnir á að leika stórt hlutverk í þróun hljóðs á þeim vettvangi,“ er haft eftir dr. Finni Pind, stofnanda og framkvæmdastjóra Treble, í tilkynningunni.