Stundvísi Play hátt í 100 prósent í nóvember

Stundvísi Play var 98,2% í nóvember en félagið hefur aldrei …
Stundvísi Play var 98,2% í nóvember en félagið hefur aldrei náð betri stundvísi frá því full starfsemi hófst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstum allar flugferðir Play, til og frá landinu, stóðust áætlun í nóvember með lítilsháttar undantekningum. Stundvísi flugfélagsins nam 98,2% í nóvember og hefur hún aldrei verið meiri frá því að full starfsemi þess hófst. Þetta kemur fram í tilkynningu Play.  

Flugfélagið flutti 75.396 farþega í síðasta mánuði, sem er fjórfalt hærri tala ef miðað er við sama mánuð á síðasta ári. Þá var sætanýtingin 79,1% í nóvember sem er tíu prósentum lægra en í október.

Flugferðir til London, París og Tenerife voru hvað vinsælastar en þar var sætanýtingin um 90%.

Af ríflega 75 þúsund farþegum Play voru 29,8% á leið frá Íslandi og 30,9% á leið til landsins. Þá voru 39,3% tengifarþegar á leið frá Evrópu til Bandaríkjanna eða öfugt.

Ört vaxandi bókunarflæði

Í tilkynningunni segir að félagið sjái ört vaxandi bókunarflæði til landsins inn í veturinn og næsta ár.

„Það er alveg óhætt að halda því fram að farþegatölurnar okkar hafi verið mjög fínar fyrir nóvembermánuð. Það hefur verið einkar ánægjulegt að sjá meiri en 90% sætanýtingu á mörkuðum á borð við London og París sem eru báðir mikilvægir markaðir fyrir leiðakerfið okkar.

Auk þess var áhugavert að sjá að sólarstrandarstaðirnir okkar, Tenerife og Alicante, hafi verið með hátt í 90% sætanýtingu þar sem áfangastaðir á borð við þá ná venjulega ekki svo góðum árangri í nóvembermánuði. Þá er ég virkilega stoltur af stundvísi Play í mánuðinum og þakka ég starfsfólki Play fyrir þennan góða árangur. Okkur er mjög í mun um að þjónusta farþega Play á sem bestan hátt og þetta er afraksturinn,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play.

Miðasala á flugi til Varsjár hafin

Play hóf miðasölu á flugi til Stokkhólms í Svíþjóð og Hamborgar í Þýskalandi í nóvember. Fyrsta flug félagsins til Stokkhólms verður 31. mars 2023 og flogið verður fjórum sinnum í viku. Fyrsta flug Play til Hamborgar verður 16. maí 2023 en flogið verður þrisvar í viku.

Þá hóf Play miðasölu á flugi til Varsjár í Póllandi í byrjun desember. Fyrsta flugið verður 3. apríl 2023 en flogið verður tvisvar í viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka