Danske Bank, stærsti banki Danmerkur, hefur játað að hafa logið að bandarískum bönkum til þess að koma illa fengnu fé frá rússneskum glæpamönnum og öðrum inn í bandaríska efnahagskerfið.
Bankinn þarf að greiða tvo milljarða bandaríkjadala í sekt, sem samsvarar 285 milljörðum króna. Bandaríska dómsmálaráðuneytið greindi frá þessu í dag.
Danski bankinn blekkti bandaríska banka og þóttist vera með strangar varnir gegn peningaþvætti í útibúi bankans í Eistlandi en svo var ekki. Þetta greiddi aðgang glæpamanna að bandaríska fjármálakerfinu.
Bankinn var sakaður um að þvætta 200 milljarða evra (212 milljarða að núvirði) frá árinu 2007 til 2015. Hneykslið kom upp árið 2018.
Danski bankinn í gegnum útbú sitt í Eistlandi hagnaðist ríflega á því að leyfa viðskiptavinum sem ekki áttu heima í Eistlandi, svokallaðir NRP-viðskiptavinir, að millifæra háar summur á milli landa án þess að hringja viðvörunarbjöllum.
Starfsmenn bankans höfðu samráð við NRP viðskiptavinina og hjálpuðu þeim að fela hvaðan peningarnir komu raunverulega, til dæmis í gegnum skúffufyrirtæki.
Glæpamennirnir reiddu sig á útibú bankans í Eistlandi til þess að hafa aðgang að bandarískum fjármálamörkuðum. Talið er að útibúið hafi miðlað um 160 milljörðum dala í gegnum bandaríska banka fyrir hönd NRP-viðskiptavina.
Danski bankinn hefur einnig samþykkt að greiða Fjármálaeftirliti Bandaríkjanna 413 milljónir bandaríkjadala í sáttagerð við yfirvöld, sem samsvarar um 59 milljörðum króna.