Elon Musk, forstjóri Teslu, er ekki lengur ríkasti maður veraldar en auðæfi hans hafa helmingast síðustu misseri, að hluta til vegna kaupa auðjöfursins á samfélagsmiðlinum Twitter. Einnig hefur hlutabréfaverð Teslu hríðfallið á árinu. Bloomberg greinir frá.
Auðæfi Musk voru hæst metin á 340 milljarða dollara, sem samsvarar tæplega 50 þúsund milljörðum. Nú eru þau metin á rúmlega 163 milljarða dollara.
Það er um átta milljörðum minna en auðæfi Bernard Arnault eru metin á, en hann á 48% hlut í LVMH samsteypunni sem á meðal annars Louis Vuitton, Moet & Chandon auk 73 annarra vörumerkja.
Þetta er í fyrsta skipti síðan í september 2021 sem Musk trónir ekki á toppi lista yfir ríkustu menn í heimi. Auðjöfurinn kom öllum á óvart í apríl þegar hann bauð hluthöfum Twitter 44 milljarða dollara fyrir samfélagsmiðilinn.
Á sama tíma fór Seðlabanki Bandaríkjanna í mestu vaxtahækkanir sem hafa sést vestanhafs í áratug. Þetta leiddi til þess að virði margra hávaxtafyrirtækja helmingaðist á skömmum tíma, eins og Teslu.
Musk reyndi mánuðum saman að koma sér undan kaupunum á Twitter, en mistókst. Hann var þess vegna tilneyddur til þess að selja hlutabréf í Teslu fyrir 15 milljarða dollara til þess að eiga fyrir kaupunum.
Musk hefur heitið því að snúa við rekstri Twitter, en vegna umdeildra uppsagna, ummæla og ákvarðana hans hafa mörg fyrirtæki ákveðið að hætta á auglýsa á Twitter.
Á sama tíma er vaxtabyrgði skulda Twitter orðin hærri en hagnaður samfélagsmiðilsins árið 2021. Samherjar Musk í bankageiranum eru að íhuga að veita Musk hagstæðari lán fyrir Twitter með veði í hlutabréfum Musks í Teslu.
Á meðan hlutabréfaverð Teslu lækkar verður hlutur Musk í SpaceX æ mikilvægari fyrir sæti hans á lista ríkustu manna í heimi, en hlutur hans í fyrirtækinu er metinn á 47 milljarða dollara.