Tæplega fjórum sinnum meiru var eitt á netinu á þremur helstu afsláttardögunum í nóvember borið saman við aðra daga mánaðarins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinagerð Rannsóknarseturs verslunarinnar á áhrifum afsláttadaga í nóvember.
Greining leiddi í ljós að dagur einhleypra (e. singles day) var vinsælasti dagur mánaðarins í netverslun en svartur föstudagur var sá vinsælasti í verslun á staðnum.
Rúmlega 10,4% af kortaveltu á netinu í nóvember var á degi einhleypra, 11. dag mánaðarins. Á meðaldegi í nóvember var hlutfall kortaveltu á netinu 2,8%.
Rúmlega fimmtungur af kortaveltu mánaðarins á netinu fór fram á þremur stærstu afsláttardögum mánaðarins, eða tæplega 1,2 milljarðar króna á dag. Á öðrum dögum mánaðarins var sambærileg meðalvelta 330 milljónir króna.
Á svörtum föstudegi 25. nóvember var hlutfallið rúmlega 4,9% af staðbundinni kortaveltu fyrir mánuðinn. Á meðaldegi í mánuðinum var hlutfall kortaveltu 3,2%.
Rúmlega 12,4% af kortaveltu á staðnum fór í gegnum greiðslukerfi fyrirtækja þrjá stærstu afsláttadaganna sem jafngildir tæpum 3,2 milljörðum króna á dag þessa þrjá daga.
Í greinagerð RSV segir að greina megi áhrif afsláttadagana í nóvember en það sjáist einnig skýr merki um vikudagaáhrif í kortaveltu á staðnum. Sú velta er venjulega mest á föstudögum og minnst á sunnudögum. Dagur einhleypra var á föstudegi í ár.