Dr. Ásta Dís Óladóttir, dósent í stjórnun og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands, er nýr formaður Jafnvægisvogarráðs og tekur við af Hildi Árnadóttur, ráðgjafa og stjórnarkonu, sem hefur verið formaður ráðsins frá 2019.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi kvenna í atvinnulífinu.
Undanfarin ár hefur Ásta Dís varið miklum tíma í rannsóknir, kynningar og viðburði á sviðum jafnra tækifæra kynjanna til stjórnunarstarfa og gefið út fjölda ritrýndra greina og bókakafla á innlendum og erlendum vettvangi. Þá hefur hún verið tíður viðmælandi í fjölmiðlum um konur í stjórnunarstöðum í íslensku atvinnulífi. Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Ásta Dís hefur lagt sérstaka áherslu á stöðu kvenna í sjávarútvegi og flutti meðal annars opnunarerindið á Sjávarútvegsráðstefnunni 2022. Þá hefur hún fengið viðurkenningu frá Sjávarklasanum og frá TM vegna rannsókna sinna og kennslu á sviðinu.
Jafnvægisvogin hefur verið starfrækt frá árinu 2018 og er unnin í samstarfi við forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar/TBWA og Ríkisútvarpið. Ásta Dís flutti erindi á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar, sem fór fram 12. október. Yfirskrift erindis hennar var „Erum við að beita úreltum aðferðum?“. Þar varpaði hún ljósi á ráðningarferli forstjóra í skráðum félögum og fjallaði auk þess um arftakastjórnun, áskoranir, tengslanet og ráðningarvenjur sem geta talist útilokandi fyrir konur.
„Ég er þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt og ég hlakka til að starfa með þeim öfluga hópi sem er að baki Jafnvægisvoginni, enda mikilvægt hagsmunamál fyrir samfélagið að rétta við þær skökku kynjamyndir sem víða finnast í atvinnulífinu,“ segir Ásta Dís í tilkynningunni.