Dæmt til að borga 217 milljóna lán

Kísilverksmiðja í Helguvík.
Kísilverksmiðja í Helguvík. mbl.is/Árni Sæberg

Eignarhaldsfélagið Kastalabrekka ehf. hefur verið dæmt til að greiða samtals 1.407.813 evrur til Arion banka vegna láns sem félagið tók til að kaupa hlutabréf í Sameinuðu sílikoni hf., fyrirtæki sem rak kísilverið United silicion í Helguvík. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem birtur var í dag.

Kísilverið var starfrækt frá nóvember 2016 til september 2017, en þá var því lokað eftir að eldur hafði ítrekað komið upp í verksmiðjunni, framleiðslustopp hafði átt sér stað og þá hafði reyk frá verksmiðjunni lagt yfir Reykjanesbæ sem íbúar kvörtuðu hástöfum yfir.

Í september 2017 tók Arion banki, sem hafði verið stærsti lánveitandi fyrirtækisins, svo yfir 98,13% af hlutafé Sameinaðs sílikons hf., en þau 1,87% sem stóðu út af voru í eigu Kastalabrekku. Eigandi Kastalabrekku er lögmannsstofan Veritas lögmenn og er skráður forráðamaður þess Friðbjörn Eiríkur Garðarsson, hálfbróðir Magnúsar Garðarssonar, stofnanda og fyrrverandi stjórnanda United silicon. Í umfjöllun Stundarinnar frá árinu 2017 var greint frá því að ítalskur barón að nafni Felix Von Longo-Liebenstein væri eigandi Kastalabrekku í gegnum lögmannsstofuna.

Samkvæmt dómi héraðsdóms var lánið, upp á 1,1 milljón evrur, veitt 30. nóvember 2016, stuttu eftir að kísilverið hóf starfsemi. Var það kúlulán með einum gjalddaga í lok nóvember 2021. Þegar lánið gjaldféll hóf bankinn að reyna að innheimta það og fór svo með það fyrir dóm. Samkvæmt kröfu bankans stóð lánið í 1.407.813 evrum með áföllnum vöxtum, eða sem samsvarar um 217 milljónum íslenskra króna.

Lögmaður Kastalabrekku fór fram á að málinu yrði vísað frá þar sem það væri vanreifað og óskýrt. Dómari féllst hins vegar ekki á það og þar sem lögmaðurinn varðist ekki efnislega var í málinu farið að kröfum Arion banka. Hafnað er skilyrði sem lögmaður Kastalabrekku setti í greinargerð sína um að fá frest til að leggja fram nýja greinargerð um efnisvarnir verði ekki fallist á frávísunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka