Hver og einn erlendur ferðamaður eyddi að meðaltali 148.800 krónum á Íslandi fyrstu tíu mánuði ársins, samanborið við 120.700 krónur á sama tímabili árið 2019, ef litið er til kortaveltu þeirra innanlands. Veltan er ríflega 23% hærri nú en þá, en raunhækkun nemur 5-6%.
Þetta kemur fram í greiningu Ferðamálastofu á þróun tekna af erlendum ferðamönnum innanlands.
„Íslensk ferðaþjónusta er að komast á það plan á sem hún var á fyrir Covid, í fjölda og umfangi greinarinnar,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri. Ferðamenn dvelja lengur á Íslandi nú en árið 2019.
Ferðamönnum frá Bandaríkjunum og Evrópu hefur fjölgað en samtímis hefur asískum ferðamönnum fækkað umtalsvert. Spila takmarkanir í Kína þar nokkuð stórt hlutverk.
„Það hefur mest að segja að við erum ekki að sjá Asíubúana og það munar talsvert um það. Ferðamenn frá Asíu hafa verið duglegir að koma hingað utan háannar, þeir eru vanir að ferðast um allt land og eyða miklu,“ segir hann en á sama tíma hafi Bandaríkjamönnum fjölgað.
„Dollarinn er sterkur og Bandaríkjamenn fá mikið fyrir sinn dollara þegar þeir ferðast til Evrópu. En svona fyrir utan Asíubúana þá eru þessar þjóðir að skila sér. Það eru einhverjar Asíuþjóðir sem eru aðeins farnar að sjást núna,“ segir hann og nefnir Japani í því samhengi. Kínverjar sjáist ekki nema þeir sem búa utan Kína.
„Við gerum ráð fyrir því að á nýju ári fari í auknum mæli að sjást ferðamenn frá Asíu,“ segir Skarphéðinn.
Ferðamenn dvöldu að meðaltali einum degi lengur á Íslandi árið 2022 en 2019. Spurður hvað kynni að skýra það segir Skarphéðinn:
„Það eru enn þá engar vísindalegar niðurstöður um það. Þegar Covid var þá skýrðist þetta af því að þeir sem voru að ferðast fóru sjaldnar og dvöldu lengur á þeim stöðum sem þeir fóru á. En hvort þetta sé að ganga til baka núna – það er of snemmt að draga ályktanir um það.“
Innlend kortavelta ferðamanna er ríflega 23% hærri nú en árið 2019 en sé litið til hækkunar verðlags á Íslandi jókst kortaveltan um 6% á föstu verðlagi. þá er veltan um 5% hærri á föstu gengi heimamynta ferðamanna á þessu tímabili.
1,4 milljónir ferðamanna heimsóttu Ísland fyrstu tíu mánuði þessa árs, um 16% færri en ferðamenn á sama tímabili árið 2019. Ferðamenn eyða hins vegar meira nú en áður, um 3% meira nú heldur en árið 2019.