Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Öldu Seafood í Hollandi, hefur keypt eignir félagsins. Alda Seafood hefur haldið utan um erlenda starfsemi Samherja Holding í Evrópu og í Norður-Ameríku frá árinu 2018.
Samherji Holding á sem kunnugt er einnig þriðjungshlut í Eimskip, en sá hlutur hefur nú verið færður undir eignarhaldsfélagið Seley ehf. og verður áfram í eigu Samherja. Baldvin var stjórnarformaður Eimskips þar til á þessu ári og situr nú í varastjórn.
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir í samtali við Morgunblaðið að erlend starfsemi félagsins hafi gengið vel undir hatti Öldu Seafood á liðnum árum. Aðspurður um ástæðu þess að Samherji selji þennan hluta nú segir hann að félagið hafi farið í gegnum kynslóðaskipti og kaup Baldvins á Öldu séu eðlilegt framhald af því.
„Þetta er erlent félag og starfsemin að öllu leyti erlendis. Við teljum að félagið sé vel komið í hans höndum og þeirra stjórnenda sem hafa starfað þar,“ segir hann.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.
Árétting: Í prentútgáfu Morgunblaðsins kom fram að Baldvin hefði keypt Öldu Seafood. Hið rétta er að Baldvin kaupir eignir í eigu Öldu Seafood. Það hefur nú verið leiðrétt.