Sjóður frá Abú Dabí eignast Edition-hótelið við Austurhöfn

Marriott Edition hótelið við Austuhöfn.
Marriott Edition hótelið við Austuhöfn. Ljósmynd/Aðsend

Fjárfestingafélagið ADQ, sem er einn af þjóðarsjóðum Abú Dabí, hefur fest kaup á eignarhlut SÍA III, sjóðs í stýringu Stefnis, í Reykjavík Edition-hótelinu við Austurhöfn. Þá hefur ADQ einnig keypt hluti annarra hluthafa, sem eru bæði lífeyrissjóðir og einkafjárfestar, en það var eignarhaldsfélagið Mandólín hf. sem átti um 70% hlut í hótelinu.

Frá þessu er greint á vef Stefnis en áður hefur verið fjallað um áhuga ADQ á hótelinu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa viðræður staðið yfir um sölu á eignarhlutinum í um hálft annað ár. Kaupverðið er ekki gefið upp á heimsíðunni.

Carpenter & Co. sem hefur verið meðeigandi Mandólín í verkefninu, mun halda hlut sínum í félaginu eftir því sem fram kemur á vef Stefnis, og engar breytingar verða á rekstri Reykjavík Edition sem áfram verður rekið af Marriott International.

Sextán hótel undir merkjum Edition

Þá kemur einnig fram að salan sé í samræmi við þá sýn SÍA III að hótelið myndi vekja áhuga erlendra langtímafjárfesta sem sjá tækifæri í því að taka þátt í frekari framþróun ferðamannaiðnaðar hér á landi.

Marriott Edition-hótelið opnaði haustið 2021 og er eitt glæsilegasta hótel landsins. Framkvæmdir við hótelið tóku lengri tíma en áætlað var í upphafi og reyndust að sama skapi kostnaðarsamari, meðal annars vegna heimsfaraldurs.

Hótelið í Reykjavík er þó ekki fyrsta hótelið sem þjóðarsjóðir Abú Dabí kaupa, því annar sjóður, Abu Dhabi Investment Authority, hefur keypt Marriott Edition-hótel í Flórída, í New York og í London. Marriott-hótelkeðjan rekur nokkur vörumerki undir sínum merkjum, en Edition-hótelin – ásamt W-hótelunum – eru það sem kalla má háklassahótel sem einblína á fágætisferðamenn. Aðeins 16 hótel eru rekin undir merkjum Edition merkisins en stefnt er að opnun þriggja til viðbótar á næstu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka