María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins segir að bílasöluárið í fyrra hafi komið nokkuð vel út. Sala hafi verið ágæt. „Þetta er sjöunda söluhæsta ár frá 1972. Eftirspurn, sér í lagi eftir rafbílum, er mjög mikil í dag og það er erfitt fyrir umboðin að anna henni. Hins vegar höfum við áhyggjur af misvísandi skilaboðum stjórnvalda.
Samkvæmt loftslagsmarkmiðum og þeim skuldbindingum sem hafa verið gerðar þarf að minnka útblástur frá samgöngum. Á sama tíma minnka stjórnvöld hlutfallslega álögur á jarðefnaeldsneytisbíla á móti umhverfisvænum ökutækjum,“ segir María.
Toyota var söluhæsti fólksbíllinn á árinu en 2.752 slíkir bílar seldust.
Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, segir að síðasta ár hafi verið mjög gott í alla staði hjá félaginu. „Það var auðvitað mikill kraftur í bílaleigunum sem þýðir að eftirspurn var mikil eftir nýjum bílum,“ segir Úlfar.
Hann segir að ákveðin óvissa sé um þróun mála á nýja árinu en þó sé engin ástæða til að ætla annað en að það verði mjög gott, líkt og það síðasta.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.