„Það er mjög mikið í húfi“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Hákon

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir áhrif söluferlis Íslandsbanka á traust almennings til einkavæðingar áhyggjuefni. Mikilvægt sé að halda áfram að losa um hlut ríkisins í bönkunum til að koma í veg fyrir lántökur ríkisins með tilheyrandi skattahækkunum.

Eins og fram kom í tilkynningu Íslandsbanka í gær telur fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands að bankinn kunni að hafa brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga og reglna sem um bankann og starfsemi hans gilda, við framkvæmd útboðsins á eignarhlut ríkisins í bankanum í mars á síðasta ári.

Þorgerður kvaðst ekki vilja tjá sig efnislega um frummat FME, enda ekki búin að sjá það. Hún hvetur þó stjórnsýsluna og bankann til þess að bregðast rétt við.

„Því það er mjög mikið í húfi,“ segir Þorgerður Katrín.

Ferlið ekki aukið trúverðugleika

„Stóra myndin er sú að við þurfum að hafa trúverðugt og gegnsætt umhverfi til þess að halda áfram sölu á hlut ríkisins, bæði í Íslandsbanka og í framhaldinu Landsbanka. Ferlið allt í kringum Íslandsbanka hefur ekki aukið þann trúverðugleika og af því hef ég áhyggjur.“ 

Þorgerður Katrín telur nægan tíma til þess að byggja upp traust og trúverðugleika á ný en viðbrögð stjórnsýslunnar og bankans skipti mjög miklu máli í því samhengi. 

„Þetta eru mjög miklir fjármunir sem ríkisstjórnin þarf á að halda til þess að greiða niður skuldir, til þess að setja í innviði. Og ef við fáum ekki þessa fjármuni í það, þá þýðir það að við þurfum að taka lán, það verða skattahækkanir, vaxtagjöld munu aukast og það verður mun erfiðara fyrir okkur ef að við höldum þessu ferli ekki áfram,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK