Einar Pétursson og Þorbjörg Kristjánsdóttir hafa gengið til liðs við Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans er fram kemur í tilkynningu.
Einar kemur frá Arion banka þar sem hann var hlutabréfagreinandi en hann hefur áður starfað hjá Landsbankanum frá 2011, m.a. í Fyrirtækjaráðgjöf. Einar er með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í fjármálum frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð.
Þorbjörg starfaði hjá Arion banka frá 2015, fyrst við fyrirtækjaþjónustu og við verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf en síðan sem sérfræðingur í markaðsviðskiptum. Frá 2021 var hún vörustjóri verðbréfa hjá bankanum. Þorbjörg er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hefur komið að fjölda vel heppnaðra verkefna undanfarið, m.a. að skráningu lyfjafyrirtækisins Alvotech á markað. Þá var Fyrirtækjaráðgjöf ráðgjafi Ardian við kaupin á Mílu af Símanum, veitti eigendum Eldum rétt ehf. ráðgjöf við söluna á fyrirtækinu til Haga og aðstoðaði Amaroq Minerals Ltd. við hlutafjáraukningu félagsins í aðdraganda skráningar á First North markaðinn. Meðal verkefna sem Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans vinnur nú að er undirbúningur að skráningu Bláa Lónsins.