Elon Musk eigandi Twitter sló heldur óeftirsóknarvert heimsmet rétt í þessu en enginn hefur tapað jafn miklum auð á jafn skömmum tíma og frumkvöðullinn góðkunni.
Musk tapaði 165 milljörðum bandaríkjadala frá nóvember 2021 til desember 2022 en engin hefur tapað jafn miklu á svo stuttum tíma samkvæmt heimsmetabók Guinness.
BBC greinir frá þessu.
Tapið er miðað við tölur frá tímaritinu Forbes en Guinness heldur því fram að samkvæmt upplýsingum frá öðrum miðlum gæti tapið verið enn meira. Á síðasta ári keypti Musk Twitter fyrir 44 milljarða bandaríkjadali sem hefur vakið ugg meðal fjárfesta sem óttast að hann einbeiti sér ekki nægilega að rekstri Teslu.
Þetta hefur valdið því að markaðsvirði fyrirtækisins hefur fallið gífurlega að undanförnu. Rýrt virði hvers hlutar í fyrirtækinu útskýrir þetta mikla tap Musk en hann gæti því endurheimt auð sinn ef hlutirnir hækka aftur í verði.
Mikið virðist hafa hallað undir fæti hjá Musk síðustu vikur en í desember í fyrra missti hann titil sinn sem ríkasti maður í heimi. Bernard Arnault tók við og er nú ríkasti maður heims en hann á 48 prósent hlut í LVMH samsteypunni sem á meðal annars Louis Vuitton, Moet & Chandon og 73 önnur vörumerki.