Tekjur Haga hf. jukust um tæp 20% á þriðja ársfjórðungi síðasta árs miðað við árið þar á undan.
„Áfram er umtalsverð aukning vörusölu miðað við sama tímabil í fyrra, en tekjur námu 40,2 ma. kr. sem er 20% vöxtur,“ er haft eftir Finni Oddsyni, forstjóra Haga, í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Árshlutareikningur Haga hf. fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2022 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi í dag.
Veltuaukning var 19,9% á ársfjórðungnum miðað við sama tímabil í fyrra og heildarhagnaður jókst um 8,2%.
„Á síðustu mánuðum hefur órói á heimsmörkuðum fyrir hrávöru og orku leitt af sér fordæmalausar hækkanir á vöruverði til neytenda og um leið haft mikil áhrif á rekstrarumhverfi í smásölu. Í ljósi þessara aðstæðna, þá má segja að starfsemi Haga á þriðja fjórðungi rekstrarársins 2022/23 hafi gengið ágætlega,“ segir Finnur.
Þá höfðu kjarasamningar áhrif á fjórðungnum en vegna afturvirkni til 1. nóvember var færð gjaldfærsla á tímabilinu.
Ef horft er til starfsþátta, þá jukust tekjur Olís um 35% á milli ára, námu 14,3 milljarða króna og afkoma batnaði.